Ómar Örn Ragnarsson flytur Tækniborg yfir í Hyrnutorg. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Tækniborg flytur yfir Borgarbrautina

Verslunin Tækniborg í Borgarnesi mun flytja yfir Borgarbrautina í Hyrnutorg, þar sem Upplýsingamiðstöð Markaðsstofu Vesturlands var síðast til húsa. Ómar Örn Ragnarsson, eigandi Tækniborgar tók við lyklum að nýja húsnæðinu fyrir helgi og væntir hann þess að verslunin verði opnuð á nýjum stað síðar í þessu mánuði. „Ég hef ekki ákveðið dagsetningu en það þarf að gera smávægilegar breytingar á nýja staðnum en annars er þetta frekar einfaldur flutningur, og stutt að fara,“ segir Ómar. Aðspurður segir hann flutninginn fyrst og fremst koma til vegna þess að núverandi húsnæði sé oft stórt fyrir verslunina síðan TM lokaði tryggingaumboði sínu þar um áramótin. „Það hentar betur að komast í minna húsnæði og svo er líka meiri umferð í gegnum Hyrnutorg og hægt að fiska fleiri viðskiptavini. Það má alveg segja að níu af hverju tíu sem koma hingað inn eru með erindi. En í Hyrnutorgi er ég bjartsýnn að fá fleiri sem svona detta inn,“ segir Ómar og brosir.

Aðspurður segir hann vöruúrval ekki koma til með að breytast mikið. „Ég verð enn með rekstrarvörur fyrir fyrirtæki, heimilistæki, sjónvörp, tölvur og smávörur tengda þessu. En það mun koma betur í ljós hvort vöruúrval breytist þegar ég fer í gegnum þetta allt við flutningana,“ segir hann. En hefur kórónufaraldur haft áhrif á rekstur Tækniborgar? „Nei. Veltan hefur ekki dottið neitt niður vegna Covid. Þetta kemur mér í raun á óvart þar sem aukin aðsókn var í netverslanir. En ég hef lagt upp með að veita bara góða þjónustu og það hefur held ég bara skilað sér,“ segir Ómar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir