Skýrsla barnaþings afhent ráðherrum

Skýrsla barnaþings 2019 verður afhent ráðherrum fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag föstudaginn 8. maí klukkan 11:30 að loknum ríkisstjórnarfundi. Salvör Nordal mun afhenda ráðherrum skýrsluna ásamt ungmennum úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og börnum sem tóku þátt á barnaþingi.

„Eitt helsta markmið fyrsta barnaþingsins sem haldið var í Hörpu dagana 21. – 22.nóvember 2019, var að skapa vettvang sem væri á forsendum barnanna sjálfra þar sem þau fengju að ráða þeim málefnum sem til umfjöllunar væru á þinginu hverju sinni. Barnaþingið verður framvegis haldið annað hvert ár og er þannig ætlað að veita börnum reglubundinn vettvang til þess að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum sem þeim finnst skipta mestu máli hverju sinni,“ segir í tilkynningu frá Umboðsmanni barna.

Í skýrslunni birtast helstu niðurstöður barnaþingsins og eru þær hugmyndir sem komu fram á þinginu flokkaðar eftir málefnum. Hugðarefni barnanna eru afar fjölbreytt og komu fram ýmsar skoðanir þeirra um framvindu samfélagsins og alþjóðamálefni.

Umboðsmaður barna mun fylgja tillögum barnaþingsins eftir við stjórnvöld. Með þessu er börnum veitt tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélagið og stefnumótun stjórnvalda. Barnaþingið er því mikilvægur liður í því að veita sjónarmiðum barna farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans.

„Ég vil þakka barnaþingmönnum sérstaklega fyrir góða og virka þátttöku. Þeir hafa sýnt, svo um munar, fram á mikilvægi þess að börn séu virkir þátttakendur í samfélagsumræðu. Barnaþingmenn unnu í sameiningu að því að finna nýjar leiðir og lausnir á fjölbreyttum viðfangsefnum með áherslu á samvinnu, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

thumbnail of BarnathingSkyrsla2020

Líkar þetta

Fleiri fréttir