Landsmenn eru jákvæðir gagnvart lífrænni ræktun

Átaksverkefnið „Lífrænt Ísland“ fór formlega af stað í síðustu viku. Markmiðið er að efla og kynna lífræna framleiðslu á Íslandi. Um er að ræða samstarfsverkefni VOR, félags framleiðenda í lífrænum búskap, Bændasamtaka Íslands og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. VOR fer með framkvæmd verkefnisins og er Berglind Häsler verkefnastjóri.

„Við hefjum átakið með því að kynna niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir unnu fyrir VOR. Þær benda til þess að mikill áhugi og eftirspurn sé eftir lífrænt vottuðum vörum á Íslandi. Það er ánægjulegt að hefja þessa vegferð með svona miklum meðbyr, niðurstöðurnar gefa fullt tilefni til að hvetja til stórsóknar á lífrænni framleiðslu á Íslandi og að efla vitund um ágæti hennar meðal neytenda.” segir Berglind.

Ríflega 80% þjóðarinnar eru jákvæð gagnvart lífrænni framleiðslu á Íslandi samkvæmt nýrri skoðanakönnun. „Það eru margar ástæður fyrir því að velja lífrænt og líkt og niðurstöður könnunarinnar benda til skipta umhverfismál neytendur alltaf meira máli. Í lífrænni ræktun er stunduð skiptiræktun og staðbundnar auðlindir nýttar við ræktunina. Þá eru notaðar náttúrulegar varnir í stað eiturefna gegn skordýrum og illgresi og erfðabreyttar lífverur bannaðar. Lífrænn áburður er notaður í stað tilbúins áburðar. Jafnramt gilda strangar reglur um noktun sýklalyfja og engin hormón eru notuð. Búfénaði er gefið lífrænt fóður og ítarlegar kröfur eru gerðar um góðan aðbúnað þeirra og útivist“ segir Berglind Häsler verkefnastjóri Lífræns Íslands í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir