Fuglaskoðunardagur við Grunnafjörð á morgun

Á morgun, laugardaginn 9. maí, er Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori. Af því tilefni verður boðið uppá fuglaskoðun í Grunnafirði í Hvalfjarðarsveit, sem er eitt af sex Ramsarsvæðum á Íslandi. Þeir sem ætla sér að njóta leiðsagnar í fuglaskoðuninni, koma sér sjálfir á staðinn. Komið er saman við veitingastaðinn Laxárbakka klukkan 9. Þaðan verður stefnan tekin á skoðunarstað/i og gera má ráð fyrir að fuglaskoðunin taki um eina klukkustund. „Nauðsynlegt er að vera vel skóaður og tilvalið að hafa meðferðis sjónauka, fuglahandbók og nesti til að maula,“ segir í tilkynningu frá Fuglavernd sem skipuleggur viðburðinn.

Leiðsögumaður verður náttúrfræðingurinn Einar Þorleifsson. Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.

Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda einnig æðarfuglar til. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Í fuglatalningum hefur orðið vart við nokkrar tegundir á válista s.s. brandönd, branduglu, grágæs, hrafn og svartbak en einnig er vitað að á svæðinu verpir hafarnarpar. Aðrar algengar fuglategundir á svæðinu eru m.a. dílaskarfar, toppendur, heiðlóur, jaðrakanar, sílamáfar, hvítmáfar og hettumáfar en einnig hafa fálkar og smyrlar sést.

Líkar þetta

Fleiri fréttir