Ferðaskrifstofa Íslands byrjuð að endurgreiða ferðir sem ekki voru farnar

Lögmannsstofan Málsvari fagnar því í tilkynningu til fjölmiðla, fyrir hönd skjólstæðinga sinna, að Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Úrval Útsýn, Plúsferðir, Sumarferðir og Iceland Travel Bureau, hafi fallist á kröfur skjólstæðinga lögmannsstofunnar og hafið endurgreiðslu krafna þeirra fyrir pakkaferðir sem var aflýst. Í tilkynningu frá Málsvara segir að skjólstæðingar hafi lengi staðið í þrefi við fyrirtækið um endurgreiðslu seldra ferða sem féllu niður vegna Covid. „Þegar við hófum innheimtuaðgerðir voru viðbrögð Ferðaskrifstofu Íslands á þann veg að allt útlit var fyrir að greiðslur yrðu torsóttar. Við gleðjumst því yfir að innheimta okkar skuli hafa skilað svo skjótum árangri,“ segir í tilkynningunni.

Fyrir liggur frumvarp ferðamálaráðherra sem heimilar ferðaskrifstofum að endurgreiða viðskiptavinum ferðir sem féllu niður með útgáfu inneignarnótna til 12 mánaða. Frumvarpið hefur mætt mótbyr enda telja viðskiptavinir ferðaskrifstofa að þeim beri að fá endurgreitt fyrir ferðir sem þeir höfðu greitt inná, en voru aldrei farnar. Ferðaskrifstofa Íslands hefur samkvæmt tilkynningu Málsvara hafið slíkar endurgreiðslur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir