Breytt skipulag Norðurálsmótsins vegna Covid-19

Norðurálsmótið í knattspyrnu fyrir 7. flokk drengja verður haldið dagana 18.-21. júní næstkomandi á Akranesi. Sem kunnugt er hefur mótið fyrir löngu skipað sér sess sem einn af hápunktum sumarsins hjá yngstu iðkendunum, en það er opið öllum knattspyrnufélögum. Mótið sjálft verður haldið dagana 19.-21. júní en í ár verður bryddað upp á þeirri nýjung að daginn áður, fimmtudaginn 18. júní, verður haldið eins dags mót fyrir drengi í 8. flokki. Alls er von á um 1.500 iðkendum til keppni á Akranesi í þessum tveimur aldursflokkum þessa fjóra daga.

Við mótahaldið verður farið að leiðeiningum sóttvarnaryfirvalda vegna Covid-19 og hefur Knattspyrnufélag ÍA gefið út ágerðaráætlun fyrir Norðurálsmótið. Þar má sjá að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi mótsins. Miða þær breytingar að því að lágmarka skörun milli þátttakenda og fylgdarfólks. Mótinu verður skipt upp í hólf sem verða merkt og vöktuð og þess gætt að takmarkanir séu virtar.

Á Akranesi eru sex stórir knattspyrnuvellir. Hverjum þeirra verður skipt niður í tvö hólf þannig að hólfin verða alls tólf talsins. Í hverju hólfi verða tveir litlir keppnisvellir og keppnisvellirnir því samtals 24. Takmarkanir á fjölda fullorðinna verða í hverju hólf og er gert ráð fyrir að þær takmarkanir muni miðast við 100 manns í júní. Fullorðnir skulu virða tveggja metra regluna og hreinlæti og sótthreinsun verður í öndvegi við allt skipulag mótsins.

Þegar kemur að gistingu verður keppnisliðum boðið að gista í skólum á Akranesi, eins og verið hefur. Skólarnir verða hólfaðir niður til að virða fjöldatakmarkanir og sérstök áhersla verður lögð á hreinlæti og sóttvarnir. Þrjú tjaldsvæði verða í boði á Akranesi á meðan mótið fer fram og þar verður leiðbeiningum yfirvalda er varða tjaldsvæði fylgt. Auk þess rekur Akraneskaupstaður tjaldsvæði í Kalmansvík sem opið er almenningi.

Morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur verður fram reiddur í íþrótta- og skólasölum. Þar verður með auðveldum hætti hægt að takmarka fjölda fullorðinna, en gert er ráð fyrir að nokkrir fullorðnir fylgi hverju liði. Að keppni lokinni verður grillveisla í hverjum hóp en þar ber eftir sem áður að virða fjöldatakmarkanir. Hefðbundið kaffiboð fyrir foreldra keppenda að kvöldi laugardags hefur verið fellt niður vegna fjöldatakmarkana.

Aðgerðaráætlunina má nálgast í heild sinni á vef Knattspyrnufélags ÍA, www.kfia.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir