Pottasvæðið í sundlauginni í Borgarnesi hefur fengið mikla aðhlynningu síðustu daga. Ljósm. Gunnhildur Lind Hansdóttir.

Ýmsar framkvæmdir við sundlaugar og íþróttamannvirki í Borgarbyggð

Sundlaugar og önnur íþróttamannvirki í Borgarbyggð hafa verið lokuð frá 23. mars síðastliðinn og hafa íbúar í sveitarfélaginu þurft að sætta sig við að komast ekki í almenningslaugar og almennt fært alla hreyfingu undir beran himinn. Ingunn Jóhannesdóttir, forstöðumaður íþróttamannvirkja hjá sveitarfélaginu, segir þó að búið sé að nýta tímann vel í lokununum til ýmissa framkvæmda. Til dæmis er búið að setja hita við sundlaugarbakkann á Varmalandi. Í íþróttahúsinu á Kleppjárnsreykjum er verið að skipta um gólfefni bæði í klefum og á gangi. Stærstu framkvæmdirnar hafa hins vegar átt sér stað í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. „Píparar og rafvirkjar eru búnir að taka allt í gegn í kjallaranum,“ segir Ingunn, en framkvæmdir hófust skömmu eftir lokun vegna Covid-19. „Það er búið að laga margt sem hefur verið að bila að undanförnu. Einnig er verið að laga ofnakerfi og loftræstikerfin í öllu húsinu,“ bætir hún við. Að auki segir Ingunn að búið sé að ditta að ýmsu öðru, eins og reyndar oft er gert á vorin, til dæmis að þrífa, mála og bóna gólf.

Vikuna 11.-15. maí fá grunnskólanemendur aftur aðgang að íþróttahúsinu ásamt því að skipulagðar æfingar hjá ungmennafélaginu geta farið fram í salnum, en með takmörkunum. Einungis fjórum verður heimilt að vera í salnum í einu. Ekki er komin föst dagsetning hvenær sundlaugar verða opnaðar almenningi, en tilkynnt verður nánar um það í lok maí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir