Viðspyrna og varnir Stykkishólmsbæjar vegna Covid-19

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti nýverið aðgerðir til að spyrna við efnahagslegum afleiðingum Covid-19 faraldursins. Aðgerðirnar koma til viðbótar aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til, en sumar höfðu komið til framkvæmda þegar við upphaf faraldursins. Aðgerðunum er skipt í þrjá liði; varnir í þágu heimila og fyrirtækja, efling samfélagsins og sterkari innviðir.

Varnir í þágu heimila og fyrirtækja

Tillögurnar gera ráð fyrir því að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda atvinnuhúsnæðis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Álagning fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði í Stykkishólmi verði tekin til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs. Þjónustugjöld vegna þjónustu leik-, grunnskóla og Regnbogalands verði felld niður eða lækkuð í samræmi við hlutfall skertrar þjónustu. Gildistími hvers kyns árskorta, t.d. sundkorta, verði framlengdur sem nemur skertum opnunartíma.

Stykkishólmsbær muni tímabundið auka sveigjanleika í innheimtu og gjaldfrestum á greiðslum á gjalddaga 1. júlí. Dráttarvextir verði ekki reiknaðir á fyrstu þrjá mánuði vanskila vegna krafna sem bærinn gefur út í apríl og maí. Innheimtubréf verði ekki send út ef greitt er eftir eindaga þessa sömu mánuði.

Efling samfélagsins

Einn liður í eflingu samfélagsins er efling ferðaþjónustu á svæðinu. Mun Stykkishólmsbær taka þátt í markaðsátaki með Markaðsstofu Vesturlands, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, sveitarfélögunum á Snæfellsnesi og Svæðisgarðinum Snæfellsnes. Bærinn mun auk þess beita sér fyrir aukinni áherslu verkefna í sóknaráætlun til ferðaþjónustutengdra greina.

Þá verði unnin áætlun um markaðssetningu Stykkishólms og stuðning bæjarins við ferðaþjónustu sem viðbrögð við hruni ferðaþjónustunnar árin 2020-2021, til dæmis með auknum viðburðum. Aukinn kraftur verði settur í kynningu á Stykkishólmi og dregnir fram kostir þess að búa í Hólminum.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd verði falið að koma með tillögur að stuðningi við nýsköpunarverkefni, aðstoð við frumkvöðla nýsköpunarumhverfi í Stykkishólmi, ásamt því að skapa skapandi greinum í Stykkishólmi skilyrði til vaxtar í lengri tíma.

Unnið verði í samvinnu við Vinnumálastofnun, Starfsendurhæfingu Vesturlands og atvinnurekendur að sköpun starfa fyrir þá sem verða illa úti vegna ástandsins, svo sem einyrkja, fólk af erlendum uppruna og námsmenn. Áhersla verði lögð á að bjóða starfstækifæri, starfsnám og íslenskukennslu og aðra menntun til einstaklinga á atvinnuleysisbótum. Bærinn horfi enn fremur til þess að auka möguleika á sumarstörfum fyrir námsmenn á komandi sumri. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd verði falið að koma með tillögur að sóknarfærum í tengslum við Störf án staðsetningar.

Þegar kemur að listum, menningu og íþróttum verði safna- og menningarmálanefnd falið að koma með tillögur að eflingu lista- og menningarlífs í Stykkishólmi. Æskulýðs- og íþróttanefnd verði falið, í samvinnu við Snæfell, að leggja fram tillögur að íþróttaviðburðum og/eða öðrum verkefnum sem hægt er að hrinda í framkvæmd á næstu misserum til að efla og styðja íþróttastarf í Stykkishólmi.

Sterkari innviðir

Unnið verður að því að flýta fjárfestingum og viðhaldi á vegum Stykkishólmsbæjar. Bæjarstjóra verði falið að ýta enn frekar á flýtingu á færslu hjúkrunarrýma til HVE í Stykkishólmi.

Mótuð verði framtíðarsýn fyrir Stykkishólmshöfn, til að flýta uppbyggingu hafnarinnar í samvinnu við ríkið. Í því samhengi verði skoðuð staða Stykkishólms sem samgöngumiðstöð og heimahöfn Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Þá verði lögð aukin áhersla á að hraða uppbyggingu ljósleiðaratengingar í Stykkishólmi.

Átak í uppbyggingu húsnæðis og skipulagningu atvinnusvæði er einn liður í styrkingu innviða bæjarins. Þar er lagt til að undirbúnigur verði hafinn á breytingum á Skólastíg 14. Einnig að auknir verði möguleikar til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis, þéttingu byggðar flýtt og undirbúið skipulag fyrir sætkkun atvinnusvæðis og möguleikum til atvinnuuppbyggingar fjölgað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir