Útlit hússins séð frá austri. Teikning í vinnslu: Al-Hönnun ehf.

Stefnt að fjölbýlishúsi í stað hótelbyggingar við Kirkjubraut 39

Hjá skipulags- og umhverfisráði Akraneskaupstaðar er nú til meðferðar umsókn Uppbyggingar ehf. um að byggja fjölbýlishús á lóðinni Kirkjubraut 39, en lóðin er meðal annars kennd við rekstur Fólksbílastöðvarinnar sem þar hafði eitt sinn starfsemi. Uppbygging ehf. hafði áður keypt lóðina og fengið samþykkta umsókn um að byggja þar hótel, en frá því hefur nú verið horfið þar sem ekki hefur tekist að finna rekstraraðila að hóteli og fjármögnun hótelbygginga er útilokuð við þær aðstæður sem nú ríkja í ferðaþjónustunni.

„Nú er búið að leggja inn umsókn um að breyta skipulagi og byggja á lóðinni íbúðablokk með 25 litlum íbúðum, 50-60 fermetrar að stærð, en á neðstu hæð verði gert ráð fyrir skrifstofu- eða verslunarstarfsemi. Við gerum ráð fyrir því að mikil eftirspurn sé eftir litlum fyrstu kaupa íbúðum á þessum stað í hjarta bæjarins. Nú er búið að leggja inn tillögur til skipulags- og umhverfissviðs sem er með málið á sínu borði. Okkar áætlanir ganga út á að hefja framkvæmdir á þessu ári þegar kynningarferli lýkur og öll tilskilin leyfi verða komin í hús,“ segir Kristín Minney Pétursdóttir framkvæmdastjóri Uppbyggingar ehf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir