Sigurður Ingi hefur nú mælt fyrir frumvarpi sem boðar sex samvinnuverkefni í vegagerð.

Mælt fyrir frumvarpi um samvinnuverkefni í samgöngum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á þriðjudaginn fyrir frumvarpi á Alþingi til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Markmið með lagasetningunni er að auka fjármagn til vegaframkvæmda, bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Framkvæmdirnar eiga að ennfremur að stuðla að auknu umferðaröryggi. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds. Þau skilgreindu samvinnuverkefni sem um ræðir eru hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall auk Sundabrautar. Af þessum verkefnum er brú yfir Hornafjarðarfljót fullhönnuð og hægt að hefja framkvæmdir á árinu og brú yfir Ölfusá er á lokastigi í hönnun.

Með lögunum verður Vegagerðinni heimilt, að undangengnu útboði, að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir við fyrrgreind sex verkefni ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Þá verður heimilt að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð. Gjaldtaka skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár. Áætlað er að samvinnuverkefnin geti skapað allt að 4.000 ársverk. Samvinnuverkefnin bætast við vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar verða í fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna Covid-19 og framkvæmdir sem fjármagnaðar með hefðbundnum hætti á fjárlögum. Í samgönguáætlun sem liggur nú fyrir Alþingi voru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin miðað við fyrri áætlanir.

Í framsöguræðu sinni á Alþingi sagði Sigurður Ingi að frumvarpið væri eitt af áherslumálum sínum og hafi verið í undirbúningi í ráðuneytinu síðastliðin tvö ár „Álag á vegi landsins hafði aukist mikið á undanförnum árum, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna. Á meðan við bíðum eftir að ferðamennirnir komi aftur er skynsamlegt að nýta vel tímann til endurbóta á vegakerfinu, auka umferðaröryggi og greiðfærni þess. Með samvinnufrumvarpinu er kærkomið fjárfestingatækifæri til lengri tíma, t.d. fyrir lífeyrissjóði sem vilja öruggar og arðasamar leiðir. Markmið frumvarpsins er að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum. Áætlað er að samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir geti skapað allt að 4000 ársverk sem skiptist á milli hönnunar í hátæknistörfum og verktökum á framkvæmdartíma,“ sagði hann.

Ráðherra sagði frumvarpið einnig hafa þýðingu þegar fyrirsjáanlegur væri samdráttur í kjölfar Covid-19 faraldursins. Ríkisstjórnin hafi kynnt fjárfestingaátak sem feli í sér verulega hækkun á fjárfestingastigi ríkissjóðs á næstu árum. „Frumvarpið er mikilvægur þáttur í að fá aukið fjármagn inn í fjárfestingaátakið og búa til öfluga samvinnu á milli einkaaðila og ríkisins til framtíðar. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að efla og fjárfesta í innviðum samfélagsins með sérstöku tímabundnu 18 milljarða króna fjárfestingaátaki, þar af er vægi samgöngumannvirkja um 36%. Það er mikilvægt að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er, í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn. Notum því tímann vel og höldum áfram,“ sagði Sigurður Ingi á þingi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir