Hraðakstursmálum fjölgar með hækkandi sól

Eins og getið var um í síðustu viku hefur hraðakstursmálum tekið að fjölga á nýjan leik í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi. Var hraðakstur einnig áberandi undanfarna viku, að sögn lögreglu, og málum sem koma inn á borð laganna varða í gegnum hraðamyndavélarnar hefur fjölgað. Farið var með hraðamyndavélabíl umdæmisins og umferð vöktuð fyrir ofan tjaldsvæðið við Kalmansvík á Akranesi á mánudag, milli klukkan 11 og 12 á hádegi. Þessa klukkustund voru 80 bílar hraðamældir og 19 ökumenn kærðir. Sá sem hraðast ók var á 75 km hraða á klst., þar en leyfilegur hámarkshraði er 50 km/klst. Sama dag var lögregla við hraðamælingar á myndavélabílnum á Innnesvegi á Akranesi, við íþróttasvæðið þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Tæplega eitt hundrað bílar voru hraðamældir og tólf ökumenn kærðir. Sá sem hraðast ók var á 52 km hraða á klst. Að sögn lögreglu mega vegfarendur búast við því að sjá hraðamyndavélabílinn oftar á ferðinni næstu misseri. Þess utan voru allnokkrir ökumenn gripnir við of hraðan akstur úti á þjóðvegunum. Einn var stöðvaður á föstudaginn á 136 km hraða á Vesturlandsvegi við Narfastaði. Á hann yfir höfði sér 150 þús. króna sekt. Lögregla segir vaxandi umferðarhraða áhyggjuefni með hækkandi sól, sér í lagi í ljósi þess að börn eru komin á stjá að nýju eftir skert skólahald undanfarinna mánaða. Vill hún því hvetja ökumenn til að vanda sig í umferðinni. Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni, en bifreið hans var án skráningarnúmers að framan. Þurfti hann að reiða fram 20 þús. krónur í sekt af þeim sökum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir