Páll Brynjarsson, framkvæmdarstjóri SSV, og Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands, segja það mikið gæðaskref að starfsemi SSV og Markaðsstofu Vesturlands sé nú saman undir einu þaki. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Mikil óvissa í ferðaþjónustunni

Það eru miklar breytingar hjá Markaðsstofu Vesturlands þessa daganna. Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá var Upplýsingamiðstöð Markaðsstofu Vesturlands í Hyrnutorgi í Borgarnesi lokað 1. apríl síðastliðinn. „Það hefur verið stefna stjórnvalda að auka áherslu á rafræna kynningu og markaðssetningu og var því ekki vilji fyrir að peningarnir sem kæmu inn í Markaðsstofuna væru nýttir í mannaðar upplýsingamiðstöðvar. Á sama tíma og ferðaþjónusta hefur vaxið hafa stóru sveitarfélögin á Vesturlandi öll farið að reka upplýsingamiðstöðvar til að geta veitt sem bestar upplýsingar á sínum svæðum. Það er því ekki forsenda fyrir því að Markaðsstofa Vesturlands sé að reka upplýsingamiðstöð hér í Borgarnesi, í einu sveitarfélagi í landshlutanum,“ segir Margrét Björk Björnsdóttir, alltaf kölluð Maggý, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands. „Borgarbyggð hefur samið við Ljómalind að taka að sér upplýsingaþjónustu hér á þessu svæði,“ bætir hún við.

Á síðasta ári gáfu yfirvöld ferðamála út stefnumótun um að breyta markaðsstofum um land allt í áfangastaðastofur. „Með þessu er vilji til að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar á hverjum stað fyrir sig. Með tilkomu Áfangastaðaáætlana landshlutanna er meiri áhersla lögð á áfangastaðavinnu heima í héraði og okkar vinna snýr nú meira að því að byggja upp áfangastaði, fara út í þróunarvinnu og gæðastarf og styðja við uppbyggingu ferðamála og uppbyggingu Vesturlands sem áfangastaðar, frekar en að veita beinar upplýsingar til ferðamanna,“ útskýrir Maggý og bætir við að húsnæðið í Hyrnutorgi hafi ekki hentað breyttri starfsemi. „Við erum því mjög ánægð með að vera flutt hingað inn í húsnæði SSV við Bjarnabraut,“ segir Maggý.

Nánar er rætt við hana í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir