Fulltrúar HVE ásamt Benjamín Jósefssyni forseta klúbbsins við tæki svipað þeim mónitorum sem Lionsmenn gáfu nú. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Lionsmenn færðu HVE á Akranesi góðar gjafir

Í gærkvöldi héldu félagar í Lionsklúbbi Akraness fund í húsakynnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi. Búið er nú að opna sjúkrahúsið fyrir gestakomum, en fundir klúbbsins hafa legið niðri síðan í mars þegar kórónaveiran kom upp. Á fundinn mættu jafnframt forstjóri HVE og deildarstjórar á sjúkrahúsinu en klúbburinn færði HVE fjögur ný tæki að gjöf. Um er að ræða þrjá monitora til vöktunar á líðan sjúklinga og eina skilvindu sem starfsfólk rannsóknastofu notar við blóðrannsóknir. Gjafir þessar eru að andvirði 3.470.000 krónur. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE veitti gjöfunum viðtöku og færði klúbbnum kærar þakkir fyrir rausnarskap nú sem fyrr. Hún gat þess að Lionsklúbbur Akraness gaf tæki að andvirði 15 milljónir króna árin 2017-2019 og nú bætist þessi gjöf við þá upphæð.

Benjamín Jósefsson forseti Lionsklúbbs Akraness segir að auk gjafa til HVE hafi klúbburinn á því starfsári sem nú er að líða styrkt söfnun vegna Rauðu fjaðrarinnar um 100 þúsund krónur, Björgunarfélag Akraness um 200.000 kr, Mæðrastyrksnefnd um 150.000 krónur og gefið spjaldtölvur á Höfða fyrir 248 þúsund krónur. Þá hafa Lionsklúbbar á starfssvæði HVE gefið fæðingarrúm og lagði hver klúbbur fram 145 þúsund krónur í það verkefni.

Ein helsta fjáröflunarleið Lionsklúbbs Akraness er umsýsla og leiga á ljósakrossum á leiði í Akraneskirkjugarði á aðventunni. Benjamín segir að nú sé hafin endurnýjun á búnaði í kirkjugarðinum, en keyptir verða nýir krossar, lagnir og annar búnaður að andvirði rúm ein milljón króna. Þá gaf klúbburinn til alþjóðahjáparsjóðs Lions 215.000 krónur til minningar um félaga þeirra Ófeig Gestsson sem lést fyrir um einu ári síðan. „Þrátt fyrir að við séum að fjárfesta í nýjum búnaði í kirkjugarðinn er ég ánægður með hvað við í Lionsklúbbi Akraness höfum náð að leggja mörgum góðum málefnum lið,“ segir Benjamín í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir