Horft niður eftir Faxabraut frá Jaðarsbraut. Gatan verður hækkuð um tvo metra, sjóvarnargarður stækkaður og lagnir endurnýjaðar. Verkinu á að vera lokið haustið 2021.

Borgarverk bauð lægst í endurbyggingu Faxabrautar á Akranesi

Fjögur tilboð bárust í endurbyggingu Faxabrautar á Akranesi en tilboð voru opnuð í gær. Í verkinu felst hækkun götunnar, lagnavinna og frágangur ásamt stækkun grjótvarnargarðs. Verkefnið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Akraneskaupstaðar og veitufyrirtækja. Áætlaður kostnaður við verkið var 530 milljónir króna. Lægsta tilboð átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi em bauð 466 milljónir, eða 87,9% af áætluðum kostnaði. Næstlægsta tilboð átti Þróttur ehf. á Akranesi, 507 milljónir kr. Suðurverk bauð 540 milljónir og Ístak 603 milljónir.

Faxabraut er skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli og því er það íslenska ríkið sem greiðir stærstan hluta kostnaðar. Bæjaryfirvöld á Akranesi sóttu það fast að endurbygging og hækkun Faxabrautar kæmist á fjárlög og framkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar þar sem sjóvarnargarður hefur látið undan síga og nauðsynlegt er að hækka götuna til að gera hæft til byggingar svæðið fyrir innan götuna, svokallaðan Langasandsreit þar sem Sementsverksmiðjan var áður með efnisgeymslu og önnur mannvirki. Endurbyggingu Faxabrautar skal samkvæmt útboðinu verða lokið 1. septemer 2021.

Líkar þetta

Fleiri fréttir