Bátar Sæfrosts eru nú bundnir við bryggju verkefnalausir. Tjaldur BA-68 og Stormur BA-500. Búið er að róa á Tjaldi BA á yfir 50 grásleppuvertíðar, en báturinn var smíðaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar 1955. Þeir verða að óbreyttu áfram bundnir við bryggju ef ráðherra kemur ekki til móts við grásleppusjómenn við Breiðafjörð.

Ákvörðun ráðherra er reiðarslag fyrir Sæfrost í Búðardal

Sæfrost ehf er fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækið í Búðardal. Starfsemi þess hefur undanfarin ár fyrst og fremst snúist um grásleppufrystingu og söltun hrogna. Nú hefur Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eins og kunnugt er látið stöðva allar grásleppuveiðar við landið vegna mikillar veiði norðan við land. Grásleppusjómenn við vestanvert landið sitja eftir með sárt ennið og telja sig illa svikna. Eftir 20. maí verður þó leyfislegt að veiða í allt að fimmtán daga á innanverðum Breiðafirði. Nánari útfærsla þeirra veiða, magn eða dagafjöldi er þó á huldu. Þessi ákvörðun ráðherrans kemur sér afar illa fyrir fyrirtæki eins og Sæfrost í Búðardal. Breki Bjarnason framkvæmastjóri hefur skrifað atvinnuveganefnd Alþingis opið bréf sem birt er í Skessuhorni. Þar segir hann m.a. að fyrirtækið hafi verið hratt vaxandi og var í fyrra annað stærsta á landinu í vinnslu á grásleppu með á sjötta hundrað tonn. Sæfrost hefur tryggar sölur á bæði vottuðum og óvottuðum hrognum til Marenor AB í Svíþjóð. „Grásleppuvertíðin hefur tryggt atvinnu undanfarin ár í um fimm mánuði á ári, frá miðjum mars og fram í miðjan ágúst, og er aðal rekstrargrundvöllur fyrirtækisins. Þó fyrst og fremst tímabilið frá 20. maí þegar innra svæðið opnar í Breiðafirði,“ skrifar Breki.

Hafró verði látin endurskoða ráðgjöfina

„Það er svolítið sérstakt að veiðar skulu stöðvaðar því það er of mikið af grásleppu, en aldrei hafa veiðar verið stöðvaðar. Ef um loðnu væri að ræða væri búið að „leita“ og auka við kvótann. Sérstaklega eins og nú árar. Í því samhengi vil ég benda á að kostnaður við loðnuleit nam 1.385 milljónum króna á fjögurra ára tímabili frá 2015 til 2018. Frá þeim tíma þykist ég vita að kostnaður hafi heldur aukist þó ég hafi ekki gögn þar um. Það er því ekki til of mikils mælst að Hafró verði látin endurskoða ráðgjöfina. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa þegar útlit er fyrir að grásleppugengd sé sú mesta í áratugi. Eins og segir í úrskurði atvinnuvegaráðuneytisins frá 5. júlí 2019 um útgefna veiðidaga á grásleppuveiðum, þá er grásleppuveiðum stjórnað með sóknarstýringu og er hverju skipi úthlutað ákveðnum fjölda veiðidaga. Grásleppuveiðum hefur verið stjórnað með sóknarstýringu allt frá árinu 1997 og er hverju skipi úthlutað ákveðnum fjöldi veiðidaga sem útgerðir hafa getað gengið að vísu,“ skrifar Breki.

Lesa má bréf hans til atvinnuveganefndar í heild sinni hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir