Málverk sem Bjarni Skúli Ketilsson listmálari gerði af Hótel Akranesi. Myndina keypti Ragnar þegar Baski hélt myndlistarsýningu í gamla Iðnskólanum fyrr í vetur. Nú hefur Ragnar sótt um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á framhúsið og innrétta þar 12 smáíbúðir.

Hefur áætlanir um að byggja ofan á Breiðina á Akranesi

Líklega eru ekki mörg dæmi um að sami einstaklingur hafi tvisvar sinnum keypt sömu húseignina og í bæði skiptin séð eftir því. „Það er oft sagt að vítin séu til að varast þau. Það á kannski við um mig og þetta hús hér á Akranesi. En þetta fyrrum hótel og skemmtistaður hefur í tvígang orðið örlagavaldur í mínu lífi og í dag hef ég býsna háleitar hugmyndir um framtíð hússins. Ég hef því sótt um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á framhúsið og ætla að koma þar fyrir tólf smáíbúðum. Þá er ég núna búinn að innrétta litla íbúð fyrir mig og fjölskylduna í bakhúsinu og þangað munum við flytja næstu daga. Einnig er ég búinn að útbúa hér ríflega tvö hundruð fermetra vinnurými í bakhúsinu sem var danssalur þegar hér var síðast rekinn skemmtistaður.“

Skessuhorn tók Ragnar Guðmundsson múrarameistara og trésmið tali undir lok síðustu viku. Húsið sem um ræðir er við Bárugötu 15 á Akranesi en hjá Skagamönnum gengur það jafnan undir nafninu Breiðin, eða Hótel Akraness, eftir því hversu langt aftur menn leita í minningabankann. Húsið við Bárugötu 15 var byggt undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar á horninu gegnt hinu þekkta kennileiti og fyrrum stóra vinnustað; fiskvinnsluhúsi HB. Á Breiðinni hefur ýmis starfsemi verið í áranna rás. Þar hefur meðal annars verið rekið trésmíðaverkstæði, byggingavöruverslun og bílaverkstæði. Lengst var þar Hótel Akranes með starfsemi en síðast skemmtistaðurinn Breiðin. Kíkt er í skúrinn til Ragnars og meðal annars rætt um ástæðu þess að hann upphaflega flutti á Akranes. Það gerðist í kjölfar gjaldþrots bankanna en þá missti Ragnar allar sínar eigur og lenti eignalega á byrjunarreit. Smám saman hefur hann með mikilli vinnu komið sér í gang að nýju.

Sjá ítarlegt viðtal við Ragnar Guðmundsson í Skessuhorni sem kom út í dag.

Ragnar Guðmundsson og Daniela DaSilva.

Líkar þetta

Fleiri fréttir