Sagði ekki frá sóttkví fyrr en komið var á stöðina

Lögreglan á Vesturlandi stöðvaði ökumann fyrir of hraðan akstur á fimmtudaginn. Maðurinn ók bifreið sinni um Vesturlandsveg undir Hafnarfjalli á 151 km hraða á klst., þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst. Strokpróf, sem framkvæmt var á staðnum, gaf enn fremur jákvæða svörun við neyslu kannabisefna. Var maðurinn því handtekinn, færður á lögreglustöðina í Borgarnesi og gert að gefa blóðsýni. En þar með er ekki öll sagan sögð. Þegar komið var á lögreglustöðina greinir maðurinn frá því að hann eigi að vera í sóttkví vegna Covid-19. Að sögn lögreglu var sú fullyrðing sannreynd hjá almannavörnum og reyndist hún eiga við rök að styðjast. Maðurinn átti að vera í sóttkví. Vakthafandi læknir á heilsugæslunni í Borgarnesi var lagður af stað á lögreglustöðina til að taka blóðsýni úr manninum, en náðist að snúa honum við þegar þetta kom í ljós. Kom læknirinn því á stöðina í viðeigandi hlífðarbúnaði og tók bæði blóðsýni og Covid-19 sýni úr manninum. Tveir lögreglumenn voru sendir til Reykjavíkur þar sem lögreglubifreiðin var sótthreinsuð, fötin þeirra og allt sem þurfti að hreinsa. Auk þess þurfti að sótthreinsa lögreglustöðina í Borgarnesi. Síðan tók við tveggja sólarhringa bið, á meðan beðið var niðurstöðu úr Covid-19 prófi ökumannsins. Kom þá í ljós að maðurinn var ekki smitaður og gátu lögreglumennirnir snúið aftur til vinnu.

Mega illa við slíkum atvikum

Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi, segir að lögregluliðið í landshlutanum megi illa við atvikum sem þessum, þrátt fyrir að gerðar hafi verið ýmsar ráðstafanir til að reyna að lágmarka áhrif faraldursins á starf lögreglu. „Þarna misstum við tvo menn út í tvo sólarhringa. Við erum búnir að setja upp annað vaktkerfi og erum með varalið sem er tilbúið að stíga inn á vaktir ef menn detta út vegna gruns um Covid-19 smit, það er að segja lögreglumenn sem vinna heima en eru kallaðir út ef slík staða kemur upp. Þarna detta skyndilega tveir menn út sem eiga að vera á vakt og þá eru tveir kallaðir inn í staðinn. Ef þörf krefur munu síðan yfirmenn og rannsóknarlögreglumenn fara inn á vaktirnar, því við munum aldrei hætta að gera út lögreglu. En við erum ekki fjölmennt lögreglulið og megum ekki við mörgum atvikum sem þessum,“ segir Ásmundur í samtali við Skessuhorn.

Strangara verklag

Hann segir að þetta tiltekna mál, sem hófst með hraðakstri en endaði með tveimur lögreglumönnum í tveggja daga sóttkví, hafi orðið til þess að lögregla hafi tekið upp strangara verklag við allt almennt eftirlit lögreglu. „Héðan í frá verður það verklag viðhaft að ef við þurfum að hafa afskipti af fólki, handtaka það eða færa inn í lögreglubíl, þá munu lögreglumenn alltaf setja upp hanska og grímur, sem og þeir sem þarf að hafa afskipti af. Lögregla hefur afskipti af fólki í alls kyns ástandi og við getum ekki verið öruggir um að fólk segi okkur frá því ef það er smitað eða á að vera í sóttkví,“ segir Ásmundur.

Fólk haldi sig heima um páskana

Þeim sem eru í sóttkví er heimilt að skreppa í bíltúr, svo lengi sem þeir eiga ekki í samskiptum við annað fólk. Ásmundur segir lögreglu hafa áhyggjur af komandi páskahátíð í ljósi þessa. „Við höfum áhyggjur af því að páskaumferðin fari af stað og biðlum til fólks að halda sig heima. Því ef einhver sem ætlar að vera í sóttkví í sumarbústað um páskana lendir í bílslysi á leiðinni, þá er það hið versta mál,“ segir hann. „Ef til dæmis einhver sem er í sóttkví lendir í árekstri í umferðinni þá leiðir það til þess að hópur viðbragðsaðila þarf að fara í tveggja daga sóttkví að lágmarki, meðan beðið er eftir niðurstöðum Covid-19 greiningar. Ég tala nú ekki um ef viðkomandi reynist síðan smitaður af Covid-19. Þá er kannski fullt af viðbragðsaðilum úr leik í lengri tíma,“ segir hann. „Þess vegna biðlum við til fólks að vera heima um páskana,“ segir Ásmundur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir