Prjóna til góðs lykkju fyrir lykkju

Kraftur og Krabbameinsfélag Borgarfjarðar hafa hrundið af stað verkefninu „Lykkja fyrir lykkju“ og hvetja félögin alla sem sokki geta valdið til að taka þátt í verkefninu. „Við fórum af stað með þetta verkefni í tilefni af 50 ára afmæli Krabbameinsfélags Borgarfjarðar og við erum viss um að þetta muni takast vel til. Það er fullt af fólki sem kann að prjóna og hvað er betra í þessu ástandi sem er í þjóðfélaginu í dag þar sem samkomubann ríkir en að taka upp prjónana og prjóna til góðs,“ segir Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Borgarfjarðar.

„Uppskriftin ætti að vera á flestra færi. Þessir sokkar líkjast helst gömlu góðu sjónvarpssokkunum þar sem hólkur er prjónaður hælalaus og þarf því ekki að kunna flóknar gerðir af mismunandi hælum,“ segir Anna. Fólk skráir sig einfaldlega til leiks með því að skrá sig hér, senda póst á krabbameinsfelagborgarfjardar@gmail.com eða hringja í síma 865 3899 og fær þá nánari upplýsingar hvernig hægt er að nálgast garn, uppskriftir og hvar skuli skila inn tilbúnum sokkum. Verkefnið mun standa út afmælisárið 2020 þannig að það er nægur tími til stefnu. Ístex hefur gefið garnið Spuna til þessa verkefnis, það eru því ekki eingöngu hlýir sokkar heldur eru þeir líka mjúkir fyrir þá sem þola ekki ull. Framköllunarþjónustan í Borgarnesi er sérstakur stuðningsaðili við framgang verkefnisins.

Sokkarnir eru að sjálfsögðu í Kraftslitunum og fara í gjafapoka sem Kraftur gefur öllum þeim sem greinast með krabbamein á aldrinum 18-40 ára en 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju á þeim aldri. Gjafapokann fær fólk afhentan á krabbameinsdeildunum þegar það mætir í meðferð eða í fræðsluviðtal til hjúkrunarfræðings. Í pokanum eru fleiri gagnlegar gjafir frá Krafti eins og bæklingar með ýmsum gagnlegum upplýsingum, bókin LífsKraftur-Fokk ég er með krabbamein, tannbursti og armband. Nýjungin í gjafapokanum eru svo þessir fallegu sokkar sem munu svo sannarlega koma að góðum notum og ylja fólk um tær og hjarta.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira