Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri í Borgarbyggð.

Ýmis járn í eldinum í Borgarbyggð

Þórdís Sif Sigurðardóttir fékk sannarlega stórt verkefni til að takast á við á fyrstu dögum sínum sem sveitarstjóri í Borgarbyggð. Hún lagði áherslu á að koma sér vel inn í mál kórónuveirunnar og segir hún að í Borgarbyggð hafi strax verið ákveðið að mikilvægt væri að koma til móts við fjölskyldur og fyrirtæki í sveitarfélaginu á þessum tímum. „Við erum að skoða hvaða leiðir séu bestar og höfum til hliðsjónar leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga,“ segir Þórdís í samtali við Skessuhorn. Hún bendir á að byggðarráð hafi samþykkt á síðasta fundi sínum að veita aðilum í atvinnurekstri heimild til að óska eftir frestun greiðslna fasteignagjalda í allt að þrjá mánuði á árinu og verið sé að fylgjast með hvernig málin þróast og skoða leiðir til að standa vörð um fyrirtæki í samfélaginu. „Við erum með ýmis járn í eldinum og erum til að mynda farin að skoða að flýta framkvæmdum og fara í viðhaldsverkefni sem hefðu kannski beðið aðeins lengur við aðrar aðstæður,“ segir Þórdís. „Á svona tímum verða sveitarfélög og ríki að stíga fram til að halda atvinnulífi gangandi og ég held að við séum í raun mun betur í stakk búin núna en eftir bankahrunið.“

Ánægð hversu jákvætt fólk er

Þórdís segist vera nokkuð bjartsýn á að samfélagið í Borgarbyggð komi sterkt út úr þessum aðstæðum. „Ég held að þetta komi til með að hafa minni áhrif hér á landsbyggðinni en til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemin hér er ólík, við erum meira í frumframleiðslu og ég held að áhrifin til lengri tíma verði því minni hér,“ segir Þórdís og bætir við að það sé þó vissulega eitthvað sem tíminn einn muni leiða í ljós. „Þegar við ákveðum hvernig við munum bregðast við verðum við að sjálfsögðu með í huga hvað sé fólki og fyrirtækjum hér í sveitarfélaginu fyrir bestu. En þær ákvarðanir sem við höfum þegar tekið er að fólk mun bara borga gjöld fyrir þá þjónustu sem það nýtir, leikskólaþjónustu, dagvistun og fæðisgjöld og mánaðar- og árskort í sund og líkamsræktarstöðvar verða framlengdar sem samsvarar þeim tíma sem lokað verður. Ef fyrirtæki eða fólk lendir í vandræðum viljum við endilega hvetja alla til að leita til okkar og við skoðum hvort og þá hvernig við getum aðstoðað. Ég er virkilega ánægð hversu jákvætt fólk er og engin sé að kvarta yfir ástandinu, ekki svo maður heyri. Allir virðast bara átta sig á þessari stöðu sem við erum í og sýna ástandinu fullan skilning,“ segir Þórdís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira