Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar. Ljósm. úr safni/kgk

Vilja auka atvinnusköpun á Akranesi

Á Akranesi er að sögn Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra búið að ræða ýmsar hugmyndir um hvernig skuli brgðast við afleiðingum Covid-19 en ekki sé búið að taka endanlegar ákvarðanir um allt. Búið er að ákveða að fella niður gjöld fyrir þjónustu sem fólk getur ekki nýtt sér vegna þeirra aðstæðna sem hafa nú komið upp, svo sem leikskólagjöld og fæðisgjöld. „Hvort sem fólk hefur þurft að hafa börnin sín heima í sóttkví, vegna breytinga á fyrirkomulagi í leikskólunum, eða af því fólk kýs sjálft að hafa börnin heima, þá þarf ekki að borga fyrir þá þjónustu sem ekki er nýtt og það sama gildir um fæði í mötuneytum,“ segir Sævar Freyr í samtali við Skessuhorn.

Metfjárfestingar fyrirhugaðar

Í bæjarstjórn er að sögn Sævars nú til umræðu hvernig skuli styðja við fyrirtæki í bænum sem eru að glíma við erfiðleika vegna faraldursins. „Við erum enn að ná utanum hvernig skuli útfæra aðstoðina. Hér á Akranesi er ekki mikið um ferðaþjónustufyrirtæki, en það er sá geiri sem talið er að finni fyrst fyrir áhrifum, svo við erum að horfa fram á öðruvísi áhrif hér en víða á landinu,“ segir Sævar og bætir við að til greina komi að fresta gjalddögum á fasteignaskatti, jafnvel gera breytingar varðandi gatnagerðagjöld og fleira. „Áður en þessi veira kom var búið að ákveða að fara í töluverðar fjárfestingar á þessu ári, metfjárfestingar hjá okkur. En þrátt fyrir það erum við núna að skoða hvernig við getum gefið enn frekar í. Staðan hjá Akraneskaupstað er einstaklega góð, við skuldum lítið ásamt því að við eigum tvo milljarða handbært fé og í aðstæðum eins og þessum eiga opinberir aðilar að stíga inn til að tryggja að atvinnustig haldist hátt,“ segir Sævar. Þá segir hann það einnig vera til skoðunar hvernig megi stuðla að aukinni atvinnuþróun og atvinnusköpun á Akranesi. „Við erum heppin að hafa í raun verið byrjuð á þessari vinnu áður, en við erum búin að vinna að nokkrum þróunarverkefnum, bæði fyrir Grundartangasvæðið og hér á Akranesi þar sem möguleikar eru til atvinnusköpunar. Við munum kynna aðgerðir Akraneskaupstaðar á næstu dögum og vonum að á næstu vikum getum við kynnt áherslur okkar í nýsköpunarmálum fyrir íbúum,“ segir Sævar að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira