Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri Stykkishólms.

Samstaða og jákvæðni í Stykkishólmi þó gefi á bátinn

Í Stykkishólmi ætlar bæjarstjórn, að sögn Jakobs Björgvins Jakobssonar bæjarstjóra, að bregðast við þessu áður óþekkta ástandi með það að leiðarljósi að milda höggið fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í bænum. „Þetta er í undirbúningi eins og er og engar formaðar tillögur komnar fram en við munum á næstu dögum og vikum leggjast yfir þetta af heilum hug. Við höfum til hliðsjónar tillögur og hugmyndir frá stjórn Samtaka íslenskra sveitarfélaga og vissulega munu okkar viðbrögð litast að hluta af ákvörðunum og aðgerðum ríkisstjórnar og Alþingis. Við erum meðal annars með í huga að fresta, dreifa, fella niður eða leiðrétta ákveðin gjöld og svo auðvitað að ráðast í viðbótar viðhaldsframkvæmdir og fjárfestingar eða önnur mannaflsfrek og virðisaukandi verkefni, svona eins og ég held að flestir séu með í huga á þessari stundu,“ segir Jakob í samtali við Skessuhorn.

Samstaðan er mikilvæg

Jakob segir að vissulega ríki óvissa enda hafi faraldurinn haft áhrif á allt okkar daglega líf og þar með samfélagið í heild í óákveðinn tíma. Þannig hafi hann áhyggjur af stöðunni eins og margir aðrir, en hvað efnahagsleg áhrif varðar nefnir hann sérstaklega erfiða stöðu ferðaþjónustufyrirtækja sem glíma við tekjufall og gríðarlega óvissu. „Það er markmið sveitarfélagsins að standa með atvinnulífi og íbúum í gegnum þennan ólgusjó þannig að við stöndum þennan storm af okkur í sameiningu og verðum tilbúin að draga upp seglin þegar storminn lægir og sækja fram. Stykkishólmur er öflugur ferðaþjónustubær og liggja því mörg ferðaþjónustufyrirtæki hér í dvala eins og víða annars staðar, en ég hef fulla trú á því að ferðaþjónustufyrirtæki hér í Stykkishólmi og annars staðar á Snæfellsnesi muni í sameiningu spyrna hressilega við fótum þegar lægir og léttir til,“ segir Jakob og bætir við að Stykkishólmsbær hafi lagt höfuðáherslu á það á undanförnum vikum að endurskipuleggja sína starfsemi í öllum stofnunum til að draga úr og hefta útbreiðslu þessa faraldurs og farið alfarið að tilmælum heilbrigðisyfirvalda en vissulega séu tilfinningarnar blendnar á þessari stundu.

„Ef satt skal segja hef ég haft mun meiri áhyggjur af hættu á ótímabærum fráföllum okkar samferðarfólks, heldur en til dæmis efnahagslegum áhrifum sveitarfélagsins, og hefur það átt hug minn allan undanfarið. Ég er afar stoltur af því hvernig okkar samheldna samfélag í Stykkishólmi hefur unnið sem einn maður í tengslum við viðbrögð okkar við faraldrinum sem hefur verið algjört forgangsmál allra hér í bænum. Nú tekur hins vegar við skoðun og greining á efnahagslegum mótvægisaðgerðum bæjarins til að verja heimili og rekstraraðila í Stykkishólmi, en það er ljóst að bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar er tilbúin til samstarfs með fyrirtækjum og íbúum til að mæta í sameiningu efnahagslegum áhrifum af völdum kórónufaraldursins,“ segir hann.

Aðeins greitt fyrir nýtta þjónustu

Aðspurður segir Jakob það vera ríkan vilja hjá Stykkishólmsbæ að leggjast á árar með íbúum og rekstraraðilum í bænum. „Við þurfum að endurskoða fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og aðra þætti í kringum hana, en vissulega er það möguleiki að við aukum viðhald og fjárfestingar til að bregðast við stöðunni líkt og önnur stjórnvöld,“ segir Jakob og bætir við að þegar sé búið að ákveða að íbúar sem senda börnin sín ekki á leikskóla vegna kórónaveirunnar þurfi ekki að borga fyrir þá þjónustu. „Við höfum hólfað bæði leik- og grunnskóla niður og hafa stjórnendur og aðrir starfsmenn þar lyft grettistaki til að halda öllu gangandi. Stjórnendur nýttu helgina eftir að sett var takmörkun á skólastarf vegna farsóttar til að útfæra skipulagið og þurftum við því meðal annars ekki að loka leikskólanum á mánudeginum heldur opnuðum við bara aðeins seinna, eða klukkan tíu,“ segir Jakob ánægður og bætir við að það hjálpi vissulega við að halda leikskólanum opnum að sumir foreldrar haldi börnunum heima. „Þeir sem vilja gera það geta látið okkur vita og þá borga þeir ekki fyrir þá viku sem barnið er heima, en gripið var til þessa úrræðis til þess að tryggja fulla starfsemi allra deilda leikskólans í ljósi núverandi aðstæðna.“ segir Jakob.

Jákvætt sjónarhorn á ástandið

Jakob segist hafa mikla trú á að þetta ástand muni koma til með að breyta mörgu til frambúðar og sér hann ýmis sóknarfæri í þeim breytingum fyrir Stykkishólm. „Við komum út úr þessum öldudal með mun tæknivæddari stjórnsýslu og verðum enn tilbúnari fyrir 21. öldina. Þó að  margir hafa þegar tileinkað sér tæknina lifum við núna tíma þar sem allir neyðast til að tileinka sér hana og ég held að það sé jákvætt. Þetta opnar fyrir hugmyndir um störf án staðsetningar og ég held að þetta opni augu starfsfólks og stjórnenda fyrirtækja og stofnana fyrir því að staðsetning starfsmanna er afstæð með tilliti til tæknimöguleika nútímans. Í því er sóknarfæri fyrir landsbyggðina og ég held að nú þurfum við að fara í átak í þeim efnum og grípa þetta tækifæri,“ segir Jakob bjartsýnn. „Við þurfum að reyna að sjá það jákvæða í þessari stöðu og það ætlum við að gera. Ég er viss um að samfélagið mun rísa úr þessum hremmingum hér á Íslandi áður en langt um líður og þar mun Stykkishólmsbær ekki að láta sitt eftir liggja,“ segir hann að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira