Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í Grundarfirði. Ljóms. úr safni/tfk

Leggja sig fram um að halda sem mestu af þjónustunni gangandi í Grundarfirði

Í Grundarfirði er áhersla bæjarstjórnar að veita eins mikla þjónustu og mögulegt er, eins lengi og kostur er, við þær aðstæður sem uppi eru. „Við höfum náð að halda úti starfi í bæði leik- og grunnskólanum fyrir alla nemendur alla virka daga, ásamt heitum skólamáltíðum, og tónlistarkennslu með breytingum, sem ég tel að sé mjög gott. Við höfum þurft að hafa talsvert fyrir þessu og það er ekki sjálfgefið að geta haldið þessari þjónustu gangandi með þeim skilyrðum sem hafa verið sett. Starfsfólkið á hrós skilið, við reynum að vanda okkur og höldum því áfram eins lengi og kostur er,“ segir Björg Ágústsdóttir í samtali við Skessuhorn.

Rúm túlkun – engin gjöld fyrir ónýtta þjónustu

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur kynnt fyrstu skref til að koma til móts við íbúa bæjarins í þeirri óvissu sem ríkir. Meginreglan er að taka ekki gjöld fyrir þjónustu sem fólk er ekki að nota. „Síðan túlkum við þetta rúmt, t.d. ef foreldrar leikskólabarna sjá fram á að geta haft börnin sín heima og þannig minnka álagið á leikskólana, eða að fólk neyðist til að vera heima, t.d. af heilsufarsástæðum, þá fellum við niður gjaldið á meðan, auk þess sem fólk heldur plássum sínum á leikskólanum,“ segir Björg.

„Við, eins og aðrir, vitum ekkert hve lengi þetta ástand varir og erum ekki enn komin á þann tímapunkt, að við sjáum áhrifin á fyrirtæki og fjölskyldur. Það er ljóst að mörg fyrirtæki standa frammi fyrir miklum vanda, einkum í ferðaþjónustunni. Það hefur áhrif á tekjur starfsfólks í þeim geira, auk afleiddra áhrifa. Við sjáum þó ekki ennþá nógu vel út um framrúðuna, vitum ekki hve margir verða atvinnulausir og hve lengi, eða um áhrif á efnahag fólksins og þar með tekjur bæjarins,“ segir Björg. Þá segir hún að frekari viðbrögð bæjarins vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 kann að hafa, verði rædd á fundi bæjarstjórnar í næstu viku. „Við fylgjumst með því sem Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að og gerum ráð fyrir að okkar ráðstafanir verði með líkum hætti og annarra sveitarfélaga, t.d. frestun á gjalddögum fasteignagjalda.“

Kæmi sér vel að vita meira um útsvarið

Aðspurð segir hún að aðrar aðgerðir, eins og að auka við framkvæmdir eða breyta áherslum, hafi ekki verið ákveðnar. Það verður rætt í bæjarstjórn í næstu viku og næstu vikurnar, þegar framvinda mála skýrist frekar. Mikilvægt sé samhliða því, að bæjarstjórn leggi mat á mögulega tekjuskerðingu bæjarsjóðs, einkum útsvars og tekna hafnarsjóðs. „Það kemur sér mjög illa við þessar aðstæður hve upplýsingar um útsvarið eru ógegnsæjar og litlar, frá ríkinu til sveitarfélaga. Ég hef áður gagnrýnt þetta og bæjarstjórn hefur gengið eftir því við RSK að við fáum haldbetri upplýsingar um uppruna og skiptingu útsvarstekna, t.d. eftir atvinnugreinum. Við höfum allt of litlar forsendur til að áætla tekjumissi okkar. Við vitum að ferðaþjónustan mun finna sérlega fyrir þessum faraldri en þar sem við vitum ekki nógu vel hversu miklu ferðaþjónustan er að skila til okkar í útsvari eða hver fjöldi útsvarsgreiðenda er bak við þann hluta, þá getum við illa áætlað tekjumissinn þar,“ segir Björg. Hún bætir við að erfiðara sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og aðgerðir sveitarfélagsins þegar yfirsýn yfir stærsta tekjustofninn sé með þessum hætti. „Við munum líka skoða okkar ráðstafanir að fengnum upplýsingum frá fyrirtækjunum hér í Grundarfirði. Ekki er ólíklegt að við horfum til aukinnar markaðssetningar og nýtum tímann til enn betri undirbúnings til að taka á móti ferðamönnum þegar landið fer aftur að rísa,“ segir hún. Óheppilegt sé hinsvegar að sveitarfélögin hafi ekki haft neina beina tekjustofna, tengda ferðamönnum, til uppbyggingar síðustu árin. Það komi berlega í ljós núna.

Í Grundarfirði standa yfir umfangsmiklar hafnarframkvæmdir og að sögn Bjargar er ekki svo gott að breyta verkhraða þar. „Við munum hvorki flýta þeim framkvæmdum né seinka þeim. Þær munu að mestu halda sínu striki.“ Spurð hvort gerðar hafi verið áætlanir um aðstoð við íbúa í Grundarfirði segir Björg að enn sé ekki ljóst hver þörfin verði. „Við þurfum að sjá betur hver þróunin verður og þörfin. Stóru aðgerðirnar felast í ráðstöfunum ríkisins, t.d. stuðningi við þau sem missa vinnuna að hluta eða öllu leyti. Það sé gott að slík úrræði liggi nú þegar fyrir,“ svarar hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira