Kristján Sturluson sveitarstjóri í Dalabyggð. Ljósm. úr safni.

Í Dölunum er áhersla á að milda aðstæður fyrir íbúa

Að sögn Kristjáns Sturlusonar sveitarstjóra er verið að skoða hvernig megi minnka höggið á fjölskyldur í Dalabyggð.  „Við erum að skoða aðgerðir bæði til skemmri og lengri tíma. Byggðarráð hefur fjallað um málið og þetta verður tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar núna á fimmtudaginn. Til umfjöllunar er að fella niður gjöld fyrir þjónustu sem fólk er ekki að nýta eins og skólamötuneyti og leikskólaþjónustu. Einnig hefur verið til umræðu möguleg frestun á fasteignagjöldum en þetta er allt enn á umræðustigi. Næstu skref eru að fara yfir rekstur sveitarfélagsins út frá þessum breyttu aðstæðum og finna hvaða leið sé best fyrir okkur öll,“ segir Kristján. Til lengri tíma kemur að sögn Kristjáns til greina að fara í framkvæmdir til að efla atvinnu. „Við vorum með áætlun um töluverðar framkvæmdir á þessu ári og næstu tveimur árum og það kemur til greina að flýta þeim enn frekar. En eitt verðum við að hafa í huga sem er hvort framkvæmdirnar hafi áhrif á atvinnu í sveitarfélaginu. Nú er það þannig að sumar af þessum stóru framkvæmdum sem eru á dagskrá hjá okkur skapa ekki endilega störf hér ef stórir verktakar annarsstaðar frá sjái um þær, þó alltaf séu afleidd áhrif,“ segir Kristján og bætir við að þetta sé þó allt til skoðunar.

Sér það jákvæða líka

„Þetta er allt spurning um hvernig sé best að milda aðstæður fyrir íbúa í Dölum,“ segir Kristján. „Á þessari stundu erum við fyrst og fremst að horfa á hvernig best sé að aðlagast óhjákvæmilegum breytingum í samfélaginu og hvað það er sem kemur sér best fyrir þá sem hér búa,“ bætir hann við. Telur hann að þetta ástand muni hafa varanlegar breytingar í för með sér og hann vonar að þær verði líka til góðs. „Ég hef trú á að við munum nýta tæknina betur þegar þetta er yfirstaðið og til dæmis er ég viss um að styttri fundi munum við frekar taka í gegnum fjarfundarbúnað því það bæði sparar töluverðan tíma og peninga. Svo er maður vissulega ánægður að sjá að í framkvæmdapakka ríkisins er Skógarstrandarvegurinn loksins kominn á dagskrá. Þar er löngu kominn tími á framkvæmdir sem ég er viss um að verði mikil lyftistöng fyrir okkur í Dölunum og í samfélögunum hér í kring, bæði hvað varðar samgöngur, ferðaþjónustu og samvinnu sveitarfélaga hér á svæðinu,“ segir Kristján að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira