Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit. Ljósm. úr safni

Flýta framkvæmdum í Hvalfjarðarsveit

Í Hvalfjarðarsveit er þegar búið að samþykkja tillögur um fyrstu skref sem tekin verða til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar á samfélagið. „Sem fyrstu viðbrögð við ástandinu hefur sveitarstjórn samþykkt nokkrar aðgerðir þegar í stað,“ segir Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn. Hún segir þær ákvarðanir sem þegar er búið að taka séu að einungis skuli greitt fyrir nýtta þjónustu í sveitarfélaginu. „Foreldrar eða forráðamenn þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu og fæði í leik- og grunnskóla þá daga sem börnin eru ekki í skólanum. Að auki hefur verið ákveðið að fæðisgjald í grunnskólanum verði einungis 40% af gjaldskrárfjárhæðinni á meðan ekki sé unnt að bjóða upp á fæði með sama hætti og áður,“ segir Linda.

Aðspurð segir Linda að horft sé til þess núna að flýta viðhaldsframkvæmdum og öðrum fyrirhuguðum nýframkvæmdum. „Þetta á til dæmis við um byggingu íþróttahúss og skipulag og gatnagerð í Melahverfi. Svo eru viðhaldsverkefni í langtímaáætlun okkar sem við munum líklega færa framar í tíma,“ segir Linda. Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem mun finna mikið fyrir ástandinu en í Hvalfjarðarsveit eru fyrirtæki sem stóla á ferðaþjónustuna sem atvinnu. „Við erum að skoða möguleika á að koma með auknum hætti að kynningu og eflingu ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu,“ segir Linda og bætir við að ekki sé búið að ákveða með hvaða hætti það verði gert. Varðandi skatta og önnur gjöld segir Linda að beðið sé eftir frekari leiðbeiningum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga „Það er mín tilfinning að flestir séu að bíða eftir leiðbeinandi reglum frá þeim enda er vinnan þar í fullum gangi og við viljum öll finna sem bestu lausnir og bregðast við til að höggið verði sem minnst,“ segir Linda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira