Kristinn Jónasson sveitarstjóri í Snæfellsbæ. Ljósm. úr safni

Ætla að styðja við íbúa og fyrirtæki í Snæfellsbæ

Í Snæfellsbæ snýst vinnan núna um að leiðbeina fólki hvernig megi bregðast við ástandinu sem ríkir. Að sögn Kristins Jónassonar er ekki búið að taka ákvarðanir um hvernig sveitarfélagið muni bregðast við til að styðja við íbúa og fyrirtæki. „Það liggur þó ljóst fyrir hjá okkur að við munum gera það sem við getum til að létta róðurinn hjá íbúum og fyrirtækjum hér í Snæfellsbæ,“ segir Kristinn í samtali við Skessuhorn. „Eins og er erum við á fullu að halda samfélaginu gangandi og veita íbúum upplýsingar og fylgjast með upplýsingum frá almannavörnum og bregðast við þeim. Þessu ástandi fylgir mikil vinna en samhliða henni erum við að skoða hvað við getum gert til að bregðast við. Við höfum þegar ákveðið að fresta gjalddögum á fasteignagjöldum hjá fyrirtækjum. Eins er ljóst að við munum endurgreiða leikskólagjöld þá daga sem fólk er ekki að nýta þjónustuna. Það er ljóst að nú sem aldrei fyrr reynir á okkur og þá verðum við að standa við okkar. Við munum gæta að hagsmunum íbúa hér á svæðinu en eins og er höfum við ekki komist í að ákveða nákvæmlega hvernig við munum gera það. Það er alltaf best að segja stöðuna eins og hún er og svona er hún hjá okkur núna,“ segir Kristinn að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira