Yfirlit yfir framleiðsluferli rafeldsneytis og mögulega viðskiptavini. Teikning: BMJ Consultancy.

Hvað er rafeldsneyti?

Í fjáraukafrumvarpi sem samþykkt var á Alþingi síðastliðinn mánudag var ákveðið að leggja til fjármuni til að ýmissa fjárfestingar- og þróunarverkefna um nýtingu orku og þróun á eldsneyti til samgangna. Þar er meðal annars horft til að gera hagkvæmni- og fýsileikakönnun á einu af þeim verkefnum sem Þróunarfélag Grundartanga hefur unnið að undanfarin misseri í samstarfi við Elkem. Um er að ræða framleiðslu á svokölluðu rafeldsneyti til notkunar á bílum og skipum. Fjárhæð Ríkisins til þróunarverkefnisins er 50 milljónir króna. Áður hafði Þróunarfélag Grundartanga fengið 12 milljón króna framlag ur Orkusjóði vegna áforma um hitaveitu, sem byggir á nýtingu glatvarma frá Elkem. Til viðbótar við þessi framlög leggja Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstaður svo fram verulega fjárhæðir til þróunarfélagins.

Haraldur Benediktsson alþingismaður er nefndarmaður í fjárlaganefnd, en auk þess er hann formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs. Hann hefur unnið að framgangi þessa verkefnis auk m.a. Þórdísar Kolbrúnar R Gylfadóttur iðnaðarráðherra, Ólafi Adolfssyni formanni stjórnar Þróunarfélags Grundartanga og fleiri. „Stuðningur þessi ætti að gefa þróunarfélaginu súrefni til að efla starf sitt og þróa iðnaðarsvæðið á Grundartanga til sóknar,“ segir Haraldur í samtali við Skessuhorn.

En hvað er rafeldsneyti? Í minnisblað sem Bjarni Már Júlíusson hjá BMJ Consultancy vann fyrir þróunarfélagið segir að hugtakið rafeldsneyti sé notað sem samheiti fyrir það eldsneyti sem fæst þegar þekktar eldsneytistegundir eru búnar til úr vetni sem fengið er með rafgreiningu vatns og íblöndun koltvísýrings. Rafeldsneytið telst kolefnishlutlaust þegar raforkan til framleiðslunnar fæst frá endurnýjanlegum orkugjöfum og koltvísýringi sem fangaður er frá losandi iðanaðarstarfsemi eða úr andrúmsloftinu. Á Grundartanga starfa tvær stóriðjur sem losa alls um eina milljón tonna af CO2 á ári og því er svæðið talið kjörinn staður til að binda CO2 til framleiðslu á rafeldsneyti. Flækjustig og hagkvæmni framleiðslunnar ræðst svo af því hvaða tegund eldsneytis verður framleidd.

Rafmagn er vara sem hefur þá sérstöðu að hún er notuð á sömu stundu og hún er framleidd. Eina leiðin til að geyma rafmagn er annað hvort að hlaða því niður á rafgeyma eða umbreyta því í vetni. Síðarnefndi kosturinn er sá sem nú á að taka til skoðunar á Grundartanga. Með þekktri tækni má nýta koltvísýring sem orkubera fyrir vetnið fyrst um sinn og framleiða t.d. brennisteinsfría og sótminni dísilolíu. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er talið ákjósanleg staðsetning fyrir framleiðslu rafeldsneytis. Þar er nægt landrýni og skilgreint iðnaðarsvæði með góðri höfn. Svæðið hefur auk þess öfluga tenginu við raforkukerfið, en þangað liggja þrjár 220 kV raflínur Landsnets.

Líkar þetta

Fleiri fréttir