Bótakröfu á hendur Dalabyggð vísað frá

Skaðabótakröfu Arnarlóns ehf. á hendur Dalabyggð var vísað frá dómi í Héraðsdómi Vesturlands 31. mars síðastliðinn. Félagið krafðist tæplega 16,9 milljóna króna í skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á samþykktu kauptilboði í fasteignir að Laugum í Sælingsdal. Dómurinn sagði hins vegar ekki ljóst hvort myndast hefði bindandi kaupsamningur milli aðilanna. Fyrr en það hefði verið gert væri ekki hægt að leysa úr kröfu um bótaskyldu vegna ólögmætrar riftunar kauptilboðs. Enn fremur lægi fyrir og væri óumdeilt, að Dalagisting ehf. var á umræddu tímabili þinglýstur eigandi að 24% hluta fasteignanna sem tilboð Arnarlóns laut að, þ.e. eignarinnar Laugar Hótel. Með því að beina kröfum sínum aðeins að Dalabyggð en ekki Dalagistingu hafi Arnarlón ekki gætt ákvæða laga um meðferð einkamála og samaðild eigenda þeirra fasteigna sem kauptilboðið tók til.
Til vara byggði Arnarlón kröfur sínar á því að félagið hefði verið beitt blekkingum í tengslum við umræddar samningsumleitanir. Dómurinn taldi þær ástæður svo nátengdar því úrlausnarefni hvort komist hefði á bindandi kaupsamningur að úr þeim yrði ekki leyst nema fyrst yrði skorið úr um hvort slíkur samningur hafi komist á. Jafnframt hafi Arnarlóni ekki nægt að beina þeirri kröfu að Dalabyggð, heldur hafi líka þurft að beina henni að Dalagistingu ehf. sem sameiganda að fasteignunum.

Dalabyggð krafðist þess að málinu yrði vísað frá vegna vanreifunar og féllst Héraðsdómur Vesturlands á þá körfu. Arnarlóni var enn fremur gert að greiða Dalabyggð 1,4 milljónir í málskostnað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira