Mjólkursamsalan sektuð um 480 milljónir

Landsréttur staðfesti á föstudag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað á um að Mjölkursamsölunni bæri að greiða 480 milljónir til ríkisins. MS þarf að greiða 440 milljónir fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á mun hærra verði en MS sjálft og tengdir aðilar, Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög þess, þurftu að greiða fyrir mjólkina. Auk þess var MS dæmd til greiðslu 40 milljóna fyrir að halda mikilvægum gögnum frá Samkeppniseftirlitinu og brjóta þannig gegn ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu.

Málið má rekja til þess að árið 2012 sendi Mjólkursamsalan óvart reikning á Mjólkurbúið Kú vegna kaupa Mjólku ehf. á hrámjólk. Ljóst var af þeim reikningi að Mjólka, sem var í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, greiddi mun lægra verð fyrir hrámjólkina en Mjólkurbúið Kú.

Í dómi Landsréttar segir að ljóst hafi verið að MS væri í markaðsráðandi stöðu og að fyrirtækið hefði selt KS hrámjólk á allt að 17% lægra verði en öðrum kaupendum. Sama varan hafi því verið seld ólíkum aðilum á mismunandi verði sem hafði veikt samkeppnisstöðu þeirra sem hafi þurft að greiða hærra verð. Taldi dómurinn að ekki væru fyrir hendi hlutlægar aðstæður sem gætu réttlætt þennan verðmismunun. Landsréttur taldi því ótvírætt að MS ehf. hefði með háttsemi sinni gerst brotlegt við samkeppnislög. Brotin væru alvarleg, hefðu staðið yfir lengi og verið til þess fallin að raska samkeppnisstöðu. Auk þess hefðu brotin snúið að mikilvægri neysluvöru og þannig snert allan almenning á Íslandi. Staðfesti Landsréttur því dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um 480 milljóna sekt á hendur Mjólkursamsölunni, auk 40 milljóna króna sektar vegna brota á upplýsingaskyldu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir