Nýr vefur Grundarfjarðarbæjar

Grundarfjarðarbær hefur tekið í notkun nýja heimasíðu fyrir bæjarfélagið. Það var fyrirtækið Stefna sem hannaði og setti nýju vefsíðuna upp. Christina Degener, verkefnastjóri í markaðsmálum hjá Grundarfjarðarbæ, sá um að koma vefnum í höfn, ásamt Sunnu Njálsdóttur, umsjónarmanni bókasafnsins, en fleiri komu einnig að verkinu á fyrri stigum.

Nýja síðan er mun aðgengilegri en eldri vefur, sem kominn var til ára sinna. Fram kemur í tilkynningu á nýja vefnum að framsetning efnis hafi verið á lokametrunum í mars. Þegar ljóst var í hvað stefndi í samfélaginu hafi verið ákveðið að keyra sem fyrst á opnun hans, þrátt fyrir að ekki hafi allt verið komið á það stig sem ætlunin var fyrir birtingu. Ýmislegt snurfus bíði því betri tíma. „Gamli vefurinn var orðinn mjög óaðgengilegur í vinnslu, auk þess sem hann hentaði illa fyrir snjalltæki. Með því að setja nýja vefinn sem fyrst í loftið fæst vinnusparnaður fyrir starfsfólk bæjarins, fleiri geta sett inn á hann efni, nú þegar upplýsingum þarf að koma út hratt og vel, auk þess sem efnið er mun aðgengilegra á þeim nýja,“ segir á vef Grundarfjarðarbæjar.

Á nýja vefnum er jafnframt að finna ýmsar upplýsingar um þjónustu bæjarfélagsins á bæði ensku og pólsku. „Við lögðum talsvert púður og metnað í að ýmsar grunnupplýsingar væru aðgengilegar á þessum tungumálum líka,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, í samtali við Skessuhorn. „Þá er jafnframt ætlun okkar að nota vefinn til að leita til íbúanna. Verið er að þróa form fyrir spurningar sem hægt verður að nota til að leita álits íbúa á hinum og þessum málum og kalla eftir ábendingum,“ segir Björg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira