Aðgerðir í landbúnaði og sjávarútvegi

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudag 15 aðgerðir á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Er þeim ætlað að bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á þessar greinar. Markmiðið er að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til lengri tíma, en um leið skapa öfluga viðspyrnu þegar ástandið er gengið yfir, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í landbúnaði verða aðgerðirnar eftirfarandi: Íslensk garðyrkja verður efld til muna með auknum fjárveitingum og þjónusta og ráðgjöf til bænda aukin vegna Covid-19. Tilfærslur verða mögulegar á greiðslum samkvæmt gildandi búvörusamningum innan ársins 2020, afurðatjón vegna Covid-19 verða skráð og greiðslur til fólks sem sinnir afleysingaþjónustu verða tryggðar. Komið verður á fót mælaborði fyrir landbúnaðinn til að bæta framsetningu gagna um framleiðslu, birgðir og framleiðsluspár og óskað eftir liðsinni dýralækna í bakvarðasveit. Þá verða einnig gerðar ráðstafanir til að stuðla að ræktun iðnaðarhamps hér á landi.

Það sem snýr að sjávarútvegi og fiskeldi er: Að komið verði til móts við grásleppusjómenn sem lenda í sóttkví eða einangrun varðandi lengd veiðitímabils, að afgreiðslu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi verði flýtt og eftirlit og stjórnsýsla styrkt. Þá verði aukið fjármagn látið renna til hafrannsókna, aukið svigrúm gefið til að flytja aflaheimildir milli fiskveiðiára og að vinnu við útgáfu árskvóta deilistofna síldar, kolmunna og makríls verði flýtt.

Almennar aðgerðir snúa að því að fallið verði frá áformum um 2,5% hækukn á gjaldskrá Matvælastofnunar til 1. september næstkomandi. Auk þess að ráðstafanir verði gerðar til að tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækja í matvælaframleiðslu vegna samkomubanns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir