Frá Grundafirði sumarið 2019. Ljósm. úr safni/ tfk.

Voru vel í stakk búin til að kenna í gegnum netið

Nemendur og starfsfólk í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði sinna nú námi í gegnum internetið eins og aðrir framhaldsskólar. Skólinn var, að sögn Hrafnhildar Hallvarðsdóttur skólameistara, frekar vel undir breytingarnar búinn og hefur kennsla því gengið afskaplega vel í samkomubanni. „Það gengur í raun ótrúlega vel miðað við aðstæður. Við höfum haldið stundaskrá alveg óbreyttri og kennarar kenna bara heiman frá sér og hitta nemendur í gegnum forritið Teams. Við höfum alltaf verið með allt námsefnið á netinu, inni á Moodle og það er engin breyting þar á. Þetta var því í raun bara eitt lítið skref sem við þurftum að taka,“ segir Hrafnhildur.

Skólinn í lás

Skólanum var alfarið skellt í lás og mætir engin þangað til vinnu annar en húsvörður, ræstitæknir og starfsfólk á skriftstofu. Allir kennarar og annað starfsfólk notar fartölvur, sem skólinn hefur alltaf útvegað kennurum, til að taka upp kennsluefni heima við. „Þetta var í raun ekkert svo flókið fyrir okkur. Margir kennarar höfðu þegar verið að nota þennan búnað mikið og til dæmis hafa stærðfræikennarar verið að taka upp sýnidæmi og setja inn á Moodle og hafa þeir bara aðeins gefið í núna. Í mörgum áföngum hafa verið umræðuhópar í gegnum netið ogkennarar eru almennt í góðu sambandi við nemendahópinn,“ segir Hrafnhildur og bætir við að við skólann hafa alltaf verið fjarnemar svo fjarkennsla er ekki ný af nálinni í FSN. „Vissulega tökum við bara einn dag í einu og það sem ég segi ég dag getur verið úrelt á morgun, við bara vitum það ekki. Ég veit til dæmis ekki hvað gerist ef kennarar og nemendur hjá okkur fara að veikjast, þá verðum við að bregðast við því en eins og er erum við að halda áætlun varðandi kennsluna,“ segir hún.

Aðspurð segir hún kennarana veita nemendum eins mikið aðhald og hægt er í gegnum netið til að forðast brottfall. „Það þarf vissulega mikinn sjálfsaga að mæta í skólann svona heima hjá sér. En við erum bara í nánu sambandi við þá nemendur sem þurfa meira utanumhald og reynum að hjálpa þeim,“ segir hún og bætir við að mæting í gegnum Teams hefur verið mjög góð. „Það hefur ekki verið minni mæting en áður allavega,“ segir Hrafnhildur sem er ánægð með frammistöðu nemenda og starfsfólks á þessum flóknu tímum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira