Vilja blóðskilunarvél á HVE á Akranesi

Á fundi bæjarstjórnar Akraness síðastliðinn þriðjudag var samþykkt að skora á heilbrigðisyfirvöld að byggja upp bætta heilbrigðisþjónustu í bæjarfélaginu með uppsetningu á blóðskilunarvél á sjúkrahúsinu á Akranesi. Um leið er ítrekuð ósk þar að lútandi til heilbrigðisráðherra frá árinu 2017. Bent er á að jafnræðis er ekki gætt í heilbrigðisþjónustu við íbúa á þjónustusvæði HVE sem þurfa að fara í blóðskilun til höfuðborgarsvæðisins og íbúa sem njóta þjónustu heilbrigðisstofnana á stór-Reykjavíkursvæðinu og geta sótt þjónustuna í nærumhverfi sínu. „Sjúklingar í þessari stöðu á Akranesi og nágrenni eru háðir aðstoð sinna nánustu eða einhverra frá sveitarfélaginu því meðferð af þessum toga, sem er þeim lífsnauðsynleg, getur tekið allt að 6 til 7 klukkustundir í senn í nokkur skipti í viku hverri og eiga viðkomandi eðli máls samkvæmt ekki kost á að nýta almenningssamgöngur eða keyra eigin bíl,“ segir í áskorun bæjarstjórnar.

Þá segir: „Allar forsendur eru til staðar við HVE á Akranesi til að taka upp þessa þjónustu og sem kunnugt er býr stofnunin yfir miklum mannauði og vilja og hefur veitt öfluga heilbrigðisþjónustu á öllu Vesturlandi. HVE er tilbúið að taka við auknum verkefnum og áskorunum eins og raun ber vitni með tilvísun í samþykkt heilbrigðisráðherra frá því í október 2019 um að gera sjúkrahúsið á Akranesi að miðstöð liðskiptaaðgerða á mjöðmum og hnjám.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira