Snæfellsnesvegur um Skógarströnd er kominn á dagskrá, sem og Biskupsbeygjan svokallaða á Holtavörðuheiði og framkvæmdir og hönnun við Vesturlandsveg.

Fimmtán milljarðar í sérstakt átak gegn samdrætti í efnahagskerfinu

Snæfellsnesvegur um Skógarströnd er meðal flýtiverkefna stjórnvalda

Framkvæmdir við samgöngumannvirki eru stærsti einstaki liðurinn í sérstöku 15 milljarða fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Þingsályktunartillaga um aðgerðirnar var tekin til umræðu á Alþingi á fimmtudag.

Viðhald húsa á Vesturlandi

Áformað er að verja rúmum 2,0 milljörðum til endurbóta og viðhalds fasteigna. Þar af verður 400 milljónum ráðstafað í húsnæði heilbrigðisstofnana. Breytingar innanhúss á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og utanhússviðhald heilsugæslunnar á Akranesi falla þar undir.

Farið verður í viðhald og endurbætur á húsnæði lögreglu- og sýslumannsembætta fyrir 210 milljónir. Meðal annars endurbætur á lögreglustöðinni á Akranesi og viðhald á húsnæði sýslumannsembættisins í Stykkishólmi.

Til stendur að verja 411 milljónum króna í viðhald og endurbætur á húsnæði framhaldsskóla, meðal annars utanhússviðgerðir á málmiðnadeild Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Skógarstrandarvegur og Biskupsbeygja

Framkvæmdir við samgöngumannvirki eru sem fyrr segir stærsti einstaki fjárfestingaliður átaksins, en til þeirra er samtals áformað að verja 6,2 milljörðum á landsvísu. Ráðist verður í hafnarframkvæmdir fyrir 750 milljónir króna. Undir þann lið átaksins falla m.a. dýpkunarframkvæmdir í Ólafsvík og sjóvarnir á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum.

Farið verður í vegaframkvæmdir og hönnun fyrir 1,86 milljarða króna. Snæfellsnesvegur um Skógarströnd er kominn þar á dagskrá, sem og Biskupsbeygjan svokallaða á Holtavörðuheiði og framkvæmdir og hönnun við Vesturlandsveg. Einnig er áformað að setja einn milljarð króna í framkvæmdir við tengivegi. Setja á bundið slitlag á malarvegi um allt land og dreifist fjárfestingin um landið í hlutfalli við þá tengivegi sem eftir eru á hverju svæði með malarslitlagi. Enn fremur er milljarði til viðbótar varið í ýmsar viðhaldsaðgerðir á vegum um land allt.

15 milljarðar alls

Heildarverðmæti fjárfestingarátaksins nemur sem fyrr segir 15 milljörðum króna til verkefna á landsvísu. Utan Vesturlands má nefna að áformað er að 200 milljónum verið varið til stækkunar Grensássdeildar Landspítalans á þessu ári, en áætlaður heildarkostnaður er 1,6 milljarðar á næstu þremur árum. Stefnt er að því að byggja nýja hjúkrunardeild á Húsavík fyrir 200 milljónir, 100 milljónum verður varið í nýbyggingu áfangaheimilis fyrir þolendur kynferðisofbeldis og sömu upphæð í öryggisvistun, en samtals er áætlað að verja 700 milljónum til nýbygginga og meiriháttar endurbóta húsnæðis. 100 milljónum verður varið í byggingu flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna og 350 milljónir fara í flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli.

Samtals er áformað að verja 1.365 milljónum til orkuskipta, grænna lausna og umhverfismála á landsvísu. Er stærsti liður þess 500 milljóna framlag til orkuskipta í samgöngum og átaks í bindingu kolefnis. 1,75 milljörðum verður varið til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina, þar af 750 milljóna framlag til menningar, íþrótta og lista. Alls verður 1,35 milljörðum varið í Stafrænt Ísland og verkefni tengd upplýsingatækni, þar af 500 milljóna framlag í endurnýjun lykilgrunnkerfa hins opinbera og 500 milljónum til að hraða frekar stafvæðingu opinberrar þjónustu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira