Væntanlegur vegur mun m.a. fara hér um. Ljósm. Landvernd.

Kæra framkvæmdaleyfi Vestfjarðavegar

Landvernd hefur kært framkvæmdaleyfi sem Reykhólahreppur veitti Vegagerðinni til vegalagningar eftir svokallaðri Þ-H leið, sem m.a. liggur um Teigsskóg. Telur stjórn Landverndar að framkvæmdaleyfið brjóti í bága við bæði skipulagslög og náttúruverndarlög. Auk þess telja samtökin að stjórnarskrárákvæði um sjálfstæði sveitarfélaga hafi ekki verið virt og að Vegagerðin hafi beitt sveitarstjórn þvingunum til að fá Þ-H leiðina samþykkta.

„Það er því óhjákvæmilegt að Landvernd sem umhverfisverndarsamtök krefjist stöðvunar framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis vegna form- og efnisannmarka. Stjórn Landverndar telur að lagfæringar á vegum í Reykhólahreppi séu nauðsynlegar. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að velja Þ-H leiðina, Teigsskógarleið, umfram aðrar leiðir sem hafa verið metnar,“ segir í tilkynningu Landverndar.

Landvernd minnir á að Teigsskógur sé stærsta samfellda skóglendi Vestfjarðakjálkans, óslitinn frá fjöru og upp í hlíðar. Myndi hann einstakt samspil með leirum og grunnsævi. Báðar vistgerðirnar, birkiskógurinn og leirurnar, njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Svæðið í heild er auk þess verndað með sérlögum um verndun Breiðafjarðar og áhrifasvæði framkvæmdanna eru á náttúruminjaskrá. Með því að veita framkvæmdaleyfi hafi sveitarstjórn Reykhólahrepps brotið gegn náttúruverndarlögum, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að raska skóginum og leirunum til að bæta samgöngur. Aðrar leiðir hafi verið metnar, sem hefðu haft minni umhverfisáhrif í för með sér. Hefðu þær verið betri kostur að mati samtakanna. Stjórn Landverndar telur því að sveitarstjórn og Vegagerðin hafi ekki farið eftir niðurstöðu valkostamats. „Fjárhagslegir hagsmunir einir virðast hafa ráðið leiðarvali. Slíkt er ekki réttlætanlegt. Umhverfismat væri í raun óþarft ef eingöngu þyrfti að horfa til kostnaðar við ákvörðun um val á vegstæði.“

Að lokum telur stjórn samtakanna að í ákvörðunarferlinu hafi verið brotið gegn ákvæði stjórnarskrár um sjálfstæði sveitarfélaga og farið hafi verið gegn skipulagslögum. „Eins og fram kemur í bókunum sveitarstjórnarfulltrúa Reykhólahrepps beitti Vegagerðin sveitarstjórnina þvingunum til þess að fá Þ-H leið, Teigsskógarleið, samþykkta.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira