Frá Svignaskarði.

Efling segist hafa haft samráð við starfsmenn í orlofshúsabyggðum

Í kjölfar fréttar hér á vefnum í gær, þar sem rætt var við Einar Björnsson umsjónarmanna orlofshúsabyggðar Eflingar í Svignaskarði hefur Skessuhorni borist tilkynning frá stéttarfélaginu Eflingu. Þar segir meðal annars: „Í Svignaskarði er Efling og 15 önnur stéttarfélög að reka orlofshús. Vill félagið koma eftirfarandi á framfæri: Landlæknisembættið hefur ekki mælt með lokun orlofshúsabyggða eða sérstökum ráðstöfunum í orlofshúsum umfram það sem þegar er að finna í útgefnum leiðbeiningum embættisins til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu. Efling hefur fengið þessar upplýsingar staðfestar af embættinu. Orlofssvið Eflingar hefur á síðustu vikum átt samráð við umsjónarmenn í orlofshúsabyggðum. Komist hefur verið að samkomulagi um viðeigandi ráðstafanir til að minnka líkur á smitum vegna umgangs og samneytis við gesti. Mælst hefur verið til þess að enginn samgangur sé milli umsjónarmanna og gesta, sér í lagi við afhendingu lykla, og hafa leiðbeiningar verið gefnar út þessa efnis á þremur tungumálum. Árétting og ítarleiðbeiningar um þrif á þremur tungumálum hafa jafnframt verið settar upp í orlofshúsum. Þau orlofshús sem Efling er með í útleigu bjóða ekki upp á að gestir geti verið þar í tveggja vikna samfelldri heimasóttkví, enda ekki hægt að panta húsin í svo langan tíma. Því á það ekki að vera mögulegt fyrir félagsmenn Eflingar að vera í sóttkví í orlofshúsum stéttarfélagsins.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir