Horft yfir orlofshúsabyggð Eflingar í Svignaskarði. Ljósm. úr safni/mm.

Starfsmenn orlofshúsabyggða óvarðir gagnvart smithættu

„Við tölum reglulega saman umsjónarmenn orlofshúsabyggða sem verkalýðshreyfingin rekur og okkur er gjörsamlega misboðið,“ segir Einar Björnsson umsjónarmaður fasteigna í Svignaskarði í Borgarfirði í samtali við Skessuhorn. Verkalýðsfélagið Efling býður upp á vetrarleigu orlofshúsa í Svignaskarði og að sögn Einars hafa um 400 manns dvalið þar að jafnaði að undanförnu. „Á sama tíma og skrifstofufólk verkalýðsfélaganna í Reykjavík hefur skellt í lás á skrifstofum sínum til að verja sig, eru orlofshúsin úti á landi áfram leigð út til fólks. Við sem síðan þjónustum gesti í húsunum með lykla, gas og ýmsar tilfallandi smáviðgerðir, erum gjörsamlega óvarðir gagnvart smithættu af Covid-19. Nokkur dæmi eru jafnvel um að fólk hafi verið í bústöðunum á sama tíma og því var gert að vera í sóttkví vegna veirunnar og við umsjónarmenn staðanna svo verið kallaðir út í þessi hús til viðgerða eða aðstoðar. Það sér það náttúrlega hver maður að þetta er ekki boðlegt,“ segir Einar.

Einar segir að umsjónarmenn í orlofsbyggðum á nokkrum stöðum á landinu séu í stöðugu sambandi sín á milli. Auk Svignaskarðs nefnir hann orlofsbyggðirnar á Illugastöðum, Ölfusborgum og Munaðarnesi. „Við erum allir sammála um að hið eina rétta í stöðunni væri að orlofshúsabyggðunum verði lokað meðan faraldurinn gengur yfir. Við skorum einfaldlega á verkalýðsfélögin sem eiga þessi orlofshús að láta sömu reglur gilda yfir okkur starfsmennina sína úti á landi og um skrifstofufólkið í Reykjavík. Við getum einfaldlega smitast rétt eins og það fólk,“ sagði Einar.

Þá minnir Einar á að brestur sé í íslenskum reglum um sóttkví miðað við hvernig nágrannalönd okkar hafa verið að taka á málum. „Í Noregi gilda til dæmis þær reglur að fólki er bannað að sæta sóttkví í sumarhúsum ef þau eru staðsett utan þess sveitarfélags sem viðkomandi á lögheimili. „Íslensk stjórnvöld ættu að mínu áliti að taka sömu reglur upp tafarlaust,“ sagði Einar Björnsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir