F.v. Ágústa Einarsdóttir, Lilja Magnúsdóttir og Rut Rúnarsdóttir. Ljósm. tfk

Fara með hreyfinguna heim í stofu

Nú þegar líkamsræktarstöðvar hafa þurft að skella í lás vildi Ágústa Einarsdóttir, eigandi Líkamsræktarinnar í Grundarfirði, ásamt Lilju Magnúsdóttur og Rut Rúnarsdóttur, hvetja fólk til að halda sér á hreyfingu. Þær ákváðu því í sameiningu að fara af stað með Stofuleikana, þar sem þær hittast í líkamsræktinni og gera æfingar í beinni útsendingu á Facebook. „Við erum ekki einkaþjálfarar eða neitt slíkt heldur erum við bara venjulegar konur að gera æfingar sem allir geta gert,“ segir Ágústa í samtali við Skessuhorn. Nú er mikilvægt að fólk haldi sér á hreyfingu og gæti þess að einangrast ekki alveg heima hjá sér og er þetta leið Ágústu, Lilju og Rutar til að gleðja fólk og hvetja það til að hreyfa sig, bæði líkamlega og ekki síður fyrir andlega heilsu. „Ætli okkur hafi ekki líka bara vantað eitthvað að gera eftir að við þurftum að hætta með spinning,“ segir Rut, en þær hafa verið að kenna mjög vinsæla spinning tíma í Líkamsræktinni í Grundarfirði. „Svo fyrir þá sem ekki vilja hreyfa sig er alltaf hægt að skemmta sér yfir þessum myndböndum,“ bætir Lilja við.

Allir geta tekið þátt

Rut hefur auk þess verið að kenna hópi fólks eldri en 60 ára spinning og ákváð hún því einnig að gera sérstök myndbönd fyrir þennan aldurshóp sem hún birtir á lokuðum Facebook hópi fyrir eldri borgara í Grundarfirði. „Þau eru í áhættuhópi og þora kannski ekki mikið að vera úti meðal fólks. Því fannst okkur tilvalið að koma með hreyfinguna inn í stofu til þeirra,“ segir Lilja. „Við erum allar ólíkar en samt afar hugmyndaríkar og þetta var niðurstaðan eftir heilmikið spjall og fliss,“ svarar Lilja spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað. „Við viljum fyrst og fremst bara fá fólk til að brosa og hreyfa sig. Það geta allir tekið þátt hvar sem er í heiminum og það þarf engan sérstakan búnað til að vera með. Við erum líka að nota þetta til að miðla áfram hugmyndum sem við höfum sem gætu hjálpað fólki eða glatt það á þessum tíma, það þurfa margir á því að halda,“ segir Ágústa.

Aðspurðar segjast þær stefna á að halda þessu áfram eins og þær geta meðan samkomubannið stendur yfir. „Lilja og Rut fóru í gær að taka upp myndbönd til að eiga. En annars viljum við helst bara hafa þetta í beinni, þá er ekkert hægt að laga neitt eða breyta og fólk sér okkur bara nákvæmlega eins og við erum,“ segir Ágústa og hlær.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með þeim má finna þær á Facebook undir nafninu Líkamsræktin í Grundarfirði. Þær nota líka #stofuleikarnir svo fólk eigi auðveldara með að finna þær á hinum ýmsu miðlum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir