Kvenfélgskonur tóku sig nýverið til og mokuðu í nokkrar af þeim holum sem í veginum eru. Þeim taldist til að þetta hefðu um leið verið mestu vegabætur sem unnar hafa verið um langa hríð. Ljósm. uþ.

Kvenfélagskonum finnst komið nóg um ástand Hvítársíðuvegar

Kvenfélag Hvítársíðu hefur sent opið bréf til Vegagerðarinnar þar sem bágborið ástand malarvegarins um Hvítársíðu er fært í tal. Afrit af bréfinu er jafnframt sent á sveitarstjórn Borgarbyggðar, þingmenn Norðvesturkjördæmis, samgönguráðherra, vegamálastjóra og Skessuhorn.

Í upphafi er það rifjað upp í bréfi kvenfélagskvenna að á árunum 1930-1933 gengu konur í Kvenfélaginu Heklu í Skagahreppi í það verkefni að leggja veg um sveitina. Þær unnu að þessu verkefni í sjálfboðavinnu þrjá daga á hverju sumri í þrjú ár. „Þetta var fyrir löngu síðan, en núna er árið 2020 og miklar breytingar hafa átt sér stað. Í dag eru vegir um allar koppagrundir en ekki er annað hægt að segja en þessum vegum er misvel haldið við. Sá vegur sem við búum við er malarvegur sem væri svo sem allt í lagi ef um hann væri vel hugsað og honum haldið við.“

Þá segir um ástand vegarins: „Um malarveginn í Hvítársíðu í Borgarfirði þurfa heimamenn að fara í skóla og margir fara til vinnu á hverjum degi og allir þurfa að afla aðfanga til heimilis og búskapar. Einnig fara þar um margir ferðamenn sem þekkja misvel á malarvegi. Að keyra um lélega, holótta og óslétta vegi fer ekki vel með bílana og önnur farartæki. Okkur, sem við þennan veg búum, finnst að nú sé komið nóg og skorum á Vegagerðina að koma veginum í betra ástand svo ekki verði meira tjón á ökutækjum þeim sem um veginn fara. Ekki er eingöngu um fjárhagslegt tjón að ræða, enn verra ef þessi vegur skapar lífshættuleg skilyrði fyrir þá sem um hann fara.“

Af þessum sökum skorar Kvenfélag Hvítársíðu á Vegagerðina að halda betur við þeim malarvegum sem enn eru á svæðinu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundi kvenfélagsins: „Aðalfundur Kvenfélags Hvítársíðu haldinn á Háafelli 21. febrúar 2020, lýsir þungum áhyggjum af ástandi vegar nr. 523 sem liggur um Hvítársíðu. Vegurinn er nánast ókeyrandi og um að ræða verulegt fjárhagstjón á bílum Hvítsíðinga. Við förum fram á að viðhaldi og uppbyggingu vegarins verði þannig háttað að hann sé keyrandi.“

Undir áskorun til Vegagerðarinnar rita; Agnes Guðmundsdóttir, Anna Björg Ketilsdóttir, Elsa Þorbjarnardóttir, Heidi Laubert Andersen, Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, Ingibjörg Daníelsdóttir, Sæunn Sverrisdóttir, Þuríður Guðmundsdóttir og Þuríður Ketilsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir