Systurnar Gréta og Ólöf stofnuðu fyrirtækið 100g ehf. saman þar sem þær fræða fólk um allt tengt mataræði og næringu. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Matur er til að nærast en ekki hafa á heilanum

Systurnar Ólöf Helga og Margrét Þóra (kölluð Gréta) Jónsdætur hafa alla tíð verið mjög nánar, enda bara eitt skólaár milli þeirra. Þær eiga sömu áhugamál, sömu vinkonur og fóru báðar í sama nám. Eftir að þær luku grunnnámi í líffræði við Háskóla Íslands fóru þær í framhaldsnám í næringarfræði, Gréta í mastersnám og Ólöf í doktorsnám. Í dag hafa þær stofnað fyrirtæki saman sem heitir 100g ehf. og taka þær m.a. að sér að fræða fólk um næringu og góðar matarvenjur. En af hverju nafnið 100g? „Á öllum pakkningum um matvæli er næringargildi innihaldsins alltaf tilgreint í 100 grömmum svo okkur fannst þetta grípandi og alls ekki klisjukennt heiti fyrir svona alhliða mataræðisþjónustu,“ útskýra þær.

Hjálpa fólki að breyta mataræðinu

Systurnar bjóða m.a. upp á fyrirlestra, einstaklings- og hóparáðgjöf og ætla að halda námskeið á Akranesi þegar samkomubanni verður aflétt. Á námskeiðinu hjálpa þær fólki að breyta mataræði sínu skref fyrir skref, nú eða með því að taka allt í gegn í einu fyrir þá sem það hentar. „Við vinnum með hverjum og einum í að finna hvernig sé best að breyta mataræðinu á þann hátt sem endist,“ útskýra þær og bæta við að þær leggi líka áherslu á að hjálpa fólki að breyta viðhorfi sínu til matar. „Matur er til að nærast en ekki hafa á heilanum og verða að þráhyggju. Við erum ekki hrifnar af boðum og bönnum. Við viljum frekar að fólk hugsi um hvað sé gott fyrir okkur að borða en ekki um allt sem er bannað eins og er svo algengt, þá fáum við óhollustuna frekar á heilann,“ segir Gréta og bætir við að hollt mataræði þurfi ekki að vera flókið. „Ef allir færu nokkurn veginn eftir ráðleggingum landlæknis værum við í góðum málum en það er því miður aðeins lítill hluti sem gerir það. Einfalda leiðin er að borða fyrst og fremst hreina fjölbreytta fæðu og meira úr jurtaríkinu. Fækka tilbúnum matvælum og drekka mestmegnis vatn, þótt þetta hljómi ekki mjög spennandi og er ekki þessi töfralausn sem svo margir eru að leitast eftir,“ segir Gréta.

Sjá ítarlegt viðtal við samrýmdar systur í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir