Telja ótækt að sveitarfélag geti ekki valið við hverja er skipt

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 5. mars síðastliðinn var samþykkt að ganga að tilboði tryggingafélagsins VÍS í tryggingar fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn tók málið svo fyrir á fundi í gær. Þar var ákveðið að vísa málinu aftur til umræðu í byggðarráði. Davíð Sigurðsson lagði á fundi sveitarstjórnar fram tillögu þess efnis að málinu verði vísað inn í byggðarráð til frekari umfjöllunar. „Það er ótækt að sveitarfélag geti ekki valið að versla við fyrirtæki í heimabyggð. Ef að sveitarfélagið velur ekki sem fyrsta kost að versla við fyrirtæki í heimabyggð hvernig getum við þá ætlast til þess að fyrirtæki kjósi að setjast hér að,“ sagði í bókun Davíð. Samþykkt var samhljóða að taka nýjan snúning á málinu.

Eins og kom fram í frétt Skessuhorns fyrr á árinu bauð VÍS 17,015 milljónir króna í tryggingapakkann fyrir sveitarfélagið en tilboð frá Sjóvá og TM voru 19,3 milljónir og 19,9 milljónir.  Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði í máli VÍS gegn Borgarbyggð að sveitarfélagið skyldi fella út úr útboðsskilmálum ákvæði um að bjóðandi starfræki starfsstöð í sveitarfélaginu. Eins og kunnugt er lokaði VÍS starfsstöð sinni í Borgarnesi árið 2018 og það gerði raunar TM einnig um síðustu áramót. Sjóvá er eina tryggingafélagið sem rekur starfsstöð í Borgarbyggð, en sveitarfélaginu er óheimilt að ganga til samninga við Sjóvá á þeim forsendum. Eftir afgreiðslu sveitarstjórnar í gær fer málið til nánari úrvinnslu byggðarráðs áður en ákvörðun verður tekin um við hvaða tryggingafélag verður samið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir