Páll S Brynjarsson, Karen Jónsdóttir og Ólafur Sveinsson skála í fyrstu alíslensku byggmjólkinni.

Skáluðu í fyrstu alíslensku byggmjólkinni

Byggmjólk sem Kaja Organic á Akranesi hefur byrjað framleiðslu á er fyrsta alíslenska jurtamjólkin sem fer á markað hér á landi. „Þegar ég segi íslensk byggmjólk þá erum við að tala um íslenskt bygg en sú jurtamjólk sem gerð var tilraun með að framleiða áður var úr erlendum höfrum blönduð íslensku vatni. Hér erum við með íslenskt lífrænt bygg frá Vallanesi,“ segir Karen Jónsdóttir í samtali við Skessuhorn. Hún hefur nú hafið framleiðslu og markaðssetningu á vörunni og voru fyrstu mennirnir til að neyta byggmjókurinnar þeir Ólafur Sveinsson forstöðumaður Atvinnuráðgjafar SSV og Páll S Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV sem skáluðu við Karen í verslun hennar á Akranesi.

„Það sem er nokkuð merkilegt við íslenska byggið er að það þarf einungis 6,8% bygg til þess að ná þessu öfluga bragði á meðan Evrópa er með allt að 12-17% bygg í sínum drykkjum. Ég sel byggmjólkina í glerumbúðum. Bæði er það gert upp á geymsluþol vörunnar og svo umhverfissjónarmið,“ segir Karen. Hún fékk fyrir tveimur árum úthlutað svokölluðum Öndvegisstyrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að vinna að vöruþróuninni. „Vöruþróun og nú framleiðslu hef ég sinnt samhliða rekstri míns fyrirtækis og því er ég stolt og glöð að hafa náð þessum áfanga. Loksins náði ég að klára. Útkoman er þessi eðaldrykkur sem fer í sölu næsta miðvikudag,“ segir Karen.

Byggmjólkin verður seld í takmörkuðu upplagi til að byrja með því næsta skref er að auka framleiðslugetuna með hentugri vélbúnaði. „Byggið er einstaklega hollt enda inniheldur það mikið af beta-glukana sem lækkar kólesteról, er gott gegn stressi og styrkir ofnæmiskerfið. Því til viðbótar myndar byggið gel sem fóðrar og mýkir magann og nærir slímhúð ristilsins. Næstu skref eru svo byggmjólkur drykkir og fleiri afurðir m.a. jurtajógúrt,“ segir Karen að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir