Boðið verður upp á fermingar á Akranesi í september

Séra Þráinn Haraldsson sóknarprestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli hefur tekið ákvörðun um að bjóða upp á fermingarathafnir í september. Verða þær sem valkostur fyrir þær fjölskyldur sem kjósa að fresta athöfn. Fyrstu fermingar á Akranesi eru fyrirhugaðar 22. mars næstkomandi. Áfram verður í boði að fermast þá, komi ekki til samkomubanns. Um það ríkir hins vegar talsverð óvissa nú. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er Þráinn fyrsti prestur landsins til að ríða á vaðið með slíka ákvörðun, í ljósi kórónaveirunnar sem nú geisar.

Í bréfi til foreldra fermingarbarna skrifar sr. Þráinn meðal annars: „Eins og við vitum hefur samkomubann ekki verið sett á. Engu að síður hefur mörgum viðburðum verið frestað eða þeim aflýst. Það hefur ekki farið fram hjá okkur að mikil óvissa ríkir meðal foreldra um næstu skref. Margir gestir hafa afboðað sig í fermingarveislur og eins og staðan er í dag er viðbúið að færri muni mæta til athafna. Það er hætt við að í skugga þeirra aðstæðna sem nú ríkja verði fermingardagurinn ekki sá gleðiviðburður sem hann ætti að vera,“ skrifar séra Þráinn og bætir við: „Með tilliti til þess og hagsmuni margra fjölskyldna höfum við ákveðið að ferma í september. Fermt verður eftirtalda daga:

Ferming 22. mars: Fermt verður 6. september

Ferming 29. mars: Fermt verður 13. september

Ferming 5. apríl: Fermt verður 20. september

Ferming 19. apríl. Fermt verður 27. september

Tímasetningar eru þær sömu, kl. 10.30 og 13.30.

Þá skrifar séra Þráinn í bréfi til foreldra: „Eflaust eru einhverjir sem ekki hafa þann kost að fresta fermingum og er það skiljanlegt. Meðan ekki hefur verið sett á samkomubann munum við messa kl. 11 alla fyrirhugaða fermingardaga í mars og apríl og geta þeir sem það kjósa valið fermingu þá daga. Ég bið þá foreldra sem eiga fermingarbörn í Leirárkirkju og Innra-Hólmskirkju að hafa samband við mig ef þau kjósa að finna nýjan fermingardag.“

Þá býður sóknarprestur foreldrum að merkja við skoðanakönnun um hvort þeir kjósi að halda til streitu fermingu í vor, eða fresta henni fram í september.

Að lokum skrifar séra Þráinn: „Eins og gefur að skilja er þetta ekki léttvæg ákvörðun, ekki hefur verið gefið út samkomubann og sóttvarnarástæður kveða ekki á um slíkt enn sem komi er. Þetta er okkur lausn á þessum vanda og vona ég að sem flestir geti nýtt sér þessar fermingar í september en að öðru leyti er opið fyrir fermingar í mars og apríl, svo lengi sem ekki verið sett á samkomubann.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir