Ljósm. Stjórnarráðið/ Golli.

Kynntu aðgerðir í efnahagsmálum vegna COVID-19

Formenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu aðgerðir í efnahagsmálum til að mæta áhrifum af COVID-19 á blaðamannafundi sem hófst núna skömmu fyrir hádegi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði aðgerðirnar hugsaðar til að mæta fyrirséðu ástandi í efnahagslífinu, bæði vegna almennrar kólnunar og kórónaveirunnar. Hún sagði að þrátt fyrir að staða þjóðarbúsins væri góð þyrfti að endurskoða áform. Engu að síður væri viðnámsþróttur samfélagsins mikill og miklu skipti að Íslendingar búi að reynslu til að takast á við ófyrirséðar aðstæður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þakkaði viðbragðsaðilum hvernig tekið hefði verið á útbreiðslu COVID-19 veirunnar og almenningi fyrir viðbrögðin. Hann ítrekaði að fólk ætti að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi innan breyttra aðstæðna en taka tillit til regla og leiðbeininga heilbrigðisyfirvalda um smitvarnir og hreinlæti. Hann treysti heilbrigðiskerfinu til að takast á við heilbrigðisvána en aðgerðir ríkisins væru miðaðar að því að taka utan um fyrirtækin í landinu.

 

Frestir og niðurfellingar skatta og gjalda

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að ríkisstjórnin hefði ákveðið að senda Alþingi erindi þess efnis að forsendur fjármálastefnunnar væru brostnar. Því þyrfti að koma fram með nýja fjármálastefnu og -áætlun á næstu mánuðum. Sú vinna lægi fyrir um miðjan maímánuð.

Ríkisstjórnin hefur sammælst um nokkur atriði til að mæta efnahagslegum áhrifum af COVID-19 til að létta á fyrirtækjum sem ganga í gegnum óvenjulegt skeið. Bjarni sagði ríkisstjórnina sjá fyrir sér að opna mætti fyrir þann möguleika að fyrirtæki sem eiga við lausafjárvanda að stríða geti fengið frest til að standa skil á sköttum og gjöldum. Tímabundið verði hægt að fella niður skatta og gjöld á ferðaþjónustuna. Gistináttaskattur verður til dæmis afnuminn tímabundið.

Undirbúið hefur verið markaðsátak í samstarfi við ferðaþjónustuna og ætlar ríki að leggja verulegar fjárhæðir í markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar þegar rofar til. Vinna við átakið er þegar hafin, að sögn fjármálaráðherra.

Einnig sagði Bjarni að ríkisstjórnin vildi halda því opnu að hægt verði að grípa til ráðstafana til að örva eftirspurn í hagkerfinu. Útfærsla á því þyrfti þó að vera háð mati á aðstæðum. Einnig sér ríkisstjórnin fyrir sér að örva framkvæmdastig í landinu. „Okkar áætlanir hafa frekar miðað að næstu þremur árum en við viljum taka til skoðunar og leggja til tillögur um að flýta framkvæmdum sem gætu átt sér stað á þessu ári,“ segir Bjarni.

Ríkisstjórnin hefur haft samband við fjármálageirann um að tryggja greiðar boðleiðir svo fjármálafyrirtæki geti sinnt sínu hlutverki sem best. Eins gerir ríkisstjórnin þá kröfu að samhliða aðgerðum stjórnvalda verði fyrirtækjum sem takast á við tímabundinn vanda veitt súrefni. Þá sagði Bjarni einnig að ríkissjóður gæti aukið lausafé í umferð ef þörf væri á því með því að færa innistæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum inn á innlánsreikninga í bönkum til að styðja svigrúm bankanna til að veita viðskiptavinum sínum lánafyrirgreiðslu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira