Þessi mynd var tekin í júlí sama ár og sprengingin varð. Sem fyrr stutt í brosið.

Lenti í gassprengingu og var lengi vart hugað líf

„Ég sannast sagna átti ekki von á öðru en að þetta yrði bara ósköp venjulegur dagur í vinnunni, reyndar laugardagur og því góður stubbur sem við vinnufélagarnir áttum von á í launaumslagið. Ég var á þessum tíma að læra vélvirkjun og á samningi hjá Þorgeiri og Ellert hér í Slippnum á Akranesi. Við höfðum verið að vinna á millidekkinu um borð í Elliða GK sem lá í Akraneshöfn, en fórum í morgunkaffi klukkan hálf tíu. Ég og Jói Hregg vinnufélagi minn vorum komnir aftur um borð í skipið og ætluðum að fara að rafsjóða. Um leið og fyrsti neistinn af rafsuðunni hrökk klukkan 10:01 varð ægileg sprenging og ég man ekkert meir.“

Þannig lýsir Alfreð Rúnar Guðjónsson atviki sem gerðist að morgni laugardagsins 12. apríl árið 1997. Sprengingin um borð í Elliða bergmálaði um allt Akranes. Hvellurinn var gríðarlegur. „Eðlilega átti maður ekki von á að dagurinn myndi fara svona, maður lenti í sprengingu, yrði sóttur með þyrlu yfir Faxaflóann og lægi svo eins og grillaður kjúklingur milli heims og helju á sjúkrahúsi í margar vikur. Vera svo í hjólastól í heilt ár á eftir og þurfa að læra allt upp á nýtt. En þetta var bara raunin, það varð bara að takast á við þetta. Eftir að ég vaknaði úr rotinu á ellefta degi eftir spreninguna var það fyrsta sem ég tautaði að segja sjúkraliðanum sem var að hlúa að mér að þegja! Hún var að segja eitthvað leiðinlegt sem mér líkaði ekki og auðvitað var hugurinn ekki skýr og hugsunin ekki alveg upp á tíu eftir að vera búinn að liggja í dái hálft vorið. En þessi neikvæðu viðbrögð voru engu að síður fyrstu jákvæðu merkin um bata hjá mér, en þau áttu eftir að verða fleiri. Fyrir þetta á maður að þakka. Það gat nefnilega alveg eins farið þannig að ég vaknaði bara alls ekkert aftur, eða þá að maður yrði bara kex það sem eftir lifði,“ segir Alfreð Rúnar, eða Alli eins og hann er alltaf kallaður.

Sjá opnuviðtal við Alfreð Rúnar í Skessuhorni sem kom út í dag. Þar ræðir hann m.a. um tímann fyrir og eftir sprengingu, baklandið, fjölskylduna og hvernig hann ákvað að takast á við lífið, sem virkur þegn í samfélaginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir