Illa áttaður í anddyri bankans í Búðardal

Í morgunsárið var komið að sofandi manni í anddyri Arionbanka og Íslandspósts í Búðardal. Í anddyrinu er hraðbanki sem alla jafnan er opið inn í. Ekki var hægt að komast inn í rýmið til mannsins þar sem hann lá fyrir útihurðinni og þurfti talsvert til að vekja hann. Ljóst var að maðurinn hefði verið við drykkju, „dauður“ eins og það er kallað. Starfsmaður kom að manninum og fékk aðstoð frá foreldri sem var að fylgja barni sínu í skólann, en grunnskólinn er staðsettur hinum megin við götuna.

Loks þegar tókst að vekja manninn, sem er af erlendu bergi brotinn, var hann svo illa áttaður að hann vissi ekki hvar á landinu, eða veröldinni, hann var. Samþykkti hann því að fá aðstoð lögreglu. Haft var samband við fjarskiptamiðstöð og fengust þær upplýsingar að engin lögregla væri á vakt á svæðinu. Fljótlega rann upp fyrir manninum að hann hafi verið á ferðalagi með félögum sínum á húsbíl sem staðsettur var á tjaldsvæðinu í Búðardal, við hlið Auðarskóla. Því var haft samband við aðstoðarskólastjóra og í kjölfarið fór starfsfólk skólans í grenndarskoðun vegna málsins. Einnig var haft samband við tjaldsvæðavörð sem kannaði aðstæður á tjaldsvæði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir