Arnfinnur Teitur Ottesen og Bryndís Ottesen hjá ráðgjafa- og tæknifyrirtækinu Brambolti.

Brambolt er nýtt ráðgjafa- og tæknifyrirtæki

„Við sinnum þjónustu við miðlunar- og uppgjörskerfið Calypso fyrir fjármálastofnanir, sem felur meðal annars í sér prófanir, forritun, rekstur og almenna ráðgjöf,“ segir Arnfinnur Teitur Ottesen í samtali við Skessuhorn. Hann stofnaði Brambolt, sérhæft ráðgjafa- og tæknifyrirtæki, ásamt Stefáni B. Sigurðssyni í ársbyrjun 2019. Eru þeir tveir eigendur Brambolts. „Ég var að vinna hjá Calypso í Danmörku frá 2008 til 2013 og fór þá að vinna sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi þar í landi, allt þar til í ársbyrjun 2018 þegar ég og Stefán ákváðum að leiða formlega saman hesta okkar og fara út í það sem við erum að gera núna,“ segir Arnfinnur. Fyrsta stóra verkefni þeirra var að innleiða nýja útgáfu af Calypso hjá Arion banka síðastliðið sumar. Þar með var boltinn farinn að rúlla. En af hverju ákváðu þeir félagar að fara út í þennan rekstur til að byrja með? Arnfinnur segir að þeir hafi séð tækifæri í að nýta reynsluna til að þróa nýjar aðferðir og lausnir við utanumhald þessara kerfa. „Báðir höfðum við starfað í meira en 15 ár innan bankageirans og langaði að taka næsta skref,“ segir hann „Við höfum á okkar ferli kynnst starfsemi margra banka og fjármálastofnana. Ég held að við höfum báðir eða hvor fyrir sig unnið fyrir nánast alla stóru bankana í Skandinavíu með einhverjum hætti. Mest í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi, en svo höfum við líka unnið fyrir banka í Þýskalandi,“ segir hann.

Vilja vaxa á Akranesi

Starfsmenn Brambolts eru þrír talsins í dag, en sem fyrr segir á tveimur stöðum í heiminum.

Stefán starfar mest megnis í Danmörku en Arnfinnur á skrifstofu fyrirtækisins á Akranesi, ásamt Bryndísi Ottesen ráðgjafa. Hún byrjaði hjá Brambolti nú eftir áramót, eftir tæpan áratug hjá Landsbankanum. Aðspurð telja Arnfinnur og Bryndís að fyrirtækið hafi alla burði til að vaxa með tíð og tíma og telja að sá vöxtur myndi þá einkum fara fram hér á landi. „Það yrði þá helst hér á Akranesi. Ég held að hér sé tækifæri fyrir svona fyrirtæki að vaxa og dafna. Hér er fullt af hæfu fólki með góða reynslu sem vill örugglega frekar starfa í heimabænum ef það er í boði, í stað þess að keyra til Reykjavíkur á hverjum morgni. Eins og til dæmis Bryndís,“ segir Arnfinnur og lítur á frænku sína sem tekur undir með honum. „Hér er líka hagkvæmara að fá íbúðarhúsnæði og skrifstofur,“ segir hún. „Við teljum líka að það leynist mikil tækifæri í þessari miklu sérhæfingu okkar. Með því að nota okkar aðferðafræði og lausnir er hægt að auka sjálfvirkni og draga þannig umtalsvert úr kostnaði innan fjármálageirans,“ segja þau Arnfinnur og Bryndís að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir