Horft að Reykhólum. Ljósm. úr safni/ mm.

Samþykktu framkvæmdaleyfi Vestfjarðavegar

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum síðdegis í gær að veita framkvæmdaleyfi vegna Vestfjarðavegar eftir svokallaðri Þ-H leið. Felur hún í sér veg um Teigsskóg og þverun þriggja fjarða; Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi var samþykkt með þremur atkvæðum, en einn sat hjá og einn var á móti.

Stefnt á útboð í apríl

Sveitarstjóra var falið að semja við Vegagerðina í samráði við sveitarstjórn. Þegar samkomulag liggi fyrir um framkvæmdaleyfisgjald og eftirlit með framkvæmdum skuli sveitarstjóri gefa út framkvæmdaleyfi og auglýsa. Vegagerðin stefnir að útboði í apríl og að framkvæmdir hefjist næsta sumar, að því er fram kemur á Vísi.

Búist við kærum

Þó er óvíst að þau áform gangi eftir, þar sem búist er við því að framkvæmdaleyfið verði kært. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, tjáði Skessuhorni í október síðastliðnum að þá þegar hefðu nokkrir aðilar boðað að þeir myndu kæra framkvæmdaleyfið. Fari svo að leyfið verði kært fær málið sinn farveg fyrir dómstólum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir