Í útkalli veturinn 1993. Ljósmyndina ásamt öðrum sem fylgja viðtalinu tók Óskar Þór Óskarsson fyrrum vinnufélagi Sæmundar.

Oft úti í slæmum veðrum en þakklátur fyrir að hafa komið heill heim

„Þetta hefur nú bara verið vinnan mín. Ég hef mætt í hana og verið svo stálheppinn að koma alltaf lifandi til baka. Auðvitað á maður að vera þakklátur fyrir það,“ segir Sæmundur Ásgeirsson rafveituvirki sem nú í lok vikunnar gengur sína síðustu vakt hjá Rarik í Borgarnesi eftir samfelld 54 ára störf hjá fyrirtækinu.  „Ég byrjaði að vinna hjá Rarik 23. maí árið 1966, klukkan 8:00. Reglurnar eru þannig að maður á að hætta á sjötugasta ári og ég er sáttur við það. Ég tel mig hafa verið heppinn með vinnuveitanda sem gert hefur vel við starfsmenn og það hefur skilað sér í að öflugur hópur hefur verið hér að störfum og starfsmannavelta verið afar lítil.“

Sest var niður með Sæmundi þegar hann var að ljúka sinni síðustu bakvakt undir lok síðustu viku, en næsti föstudagur verður hans síðasti vinnudagur. „Ætli maður endi ekki á innivinnunni, að taka til á skrifborðinu. Það er leiðinlegasti hlutinn. Útiveran og að vinna úti hefur alla tíð heillað mig mest,“ segir Sæmundur. Það er táknrænt að meðal síðustu verka Sæmundar er að taka niður raflínustaura sem hann sjálfur vann við að setja upp í sveitum Vesturlands fyrir fimmtíu árum þegar dreifbýlið gat rafvæðst og bændur tekið nýja tækni í þjónustu sína. Nú eru rafstrengir lagðir í jörðu, aðrir en sjálf byggðalínan, en við það lækkar bilanatíðni og eykur öryggi rafmagnsafhendingar til muna, ekki síst þegar veður eru eins og við þekkjum í vetur.

Í Skessuhorni í dag er opnuviðtal við Sæmund Ásgeirsson rafveituvirkja þar sem hann lítur yfir farinn veg og rifjar meðal annars um atvik úr starfi sínu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir