Katla Lind 7 ára í hlutverki Ragnheiðar gömlu.

Með handáburð, takkasíma og bílastæðakort í veskinu

Þeir voru á öllum aldri gestirnir sem komu við á skrifstofu Skessuhorns í dag og glöddu starfsfólk með söng á öskudaginn. Meðal annarra hún Ragnheiður gamla sem mætti hölt og skökk með göngugrindina sína. Eftir að hafa sungið fyrir húsráðendur sýndi hún hvað hún geymir í veskinu. Þar var meðal annars að finna forláta handáburð, kort fyrir hreyfihamlaða í bílastæði og meira að segja takkasíma, sem Ragnheiður gamla var ákaflega stolt af. Hún þakkaði að endingu vel fyrir sig og kvaddi, kvaðst ætla að fara í Blikksmiðju Guðmundar þar sem Iddi Biddi móðurbróðir hennar var að leika Línu Langsokk. „Æji, hann Iddi, greyið, hann getur aldrei hagað sér eins og fullorðinn maður,“ sagði Ragnheiður, um leið og hún kallaði; „Guð geymi ykkur lömbin mín,“  og hvarf svo á braut með göngugrindina í skottinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir