Ný stjórn AK-HVA. Ljósm. arg.

Foreldrasamtökin AK-HVA voru formlega stofnuð í gær

Í gærkvöldi var stofnfundur AK-HVA Foreldrasamtakanna haldinn í Brekkubæjarskóla á Akranesi. Samtökin eru stofnuð af foreldrafélögum grunnskólanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit; þ.e. Brekkubæjarskóla, Grundaskóla og Heiðarskóla, í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir samtal og samstarf foreldra á svæðinu. Með því má skapa öflugt tengslanet foreldra barna í þessum þremur skólum svo börnin tengist enn betur áður en þau svo koma saman í framhaldsskóla.

Skólastjórnendur skólanna þriggja opnuðu fundinn og voru sammála um mikilvægi þess að starfsmenn skóla, foreldrar og börn vinni saman að skólastarfinu. Bryndís Jónsdóttir, verkefnastjóri Heimilis og skóla, og Heiðrún Janusardóttir forvarnarfulltrúi, fluttu erindi um gagnsemi og forvarnargildi foreldrasamstarfs. Þær söðu það mikilvægt að foreldrar séu samstíga í uppeldi og sýni samstöðu til að öllum börnum líði vel, enda þurfi heilt samfélag til að ala upp barn.

Tinna Steindórsdóttir, foreldri í Brekkubæjarskóla og fulltrúi úr foreldrafélagi skólans, setti endapunktinn við stofnfundinn með formlegri stofnun samtakanna. Að því loknu var boðið upp á kaffi og kökur og foreldrar gátu spjallað saman sem er gott fyrsta skref að góðu samtali foreldra.

Svipmynd frá fundinum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir